Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa seinni spurningu. Í dag spurði hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, hæstv. fjármálaráðherra aðeins út í fjármögnun heilbrigðiskerfisins og fékk það svar til baka að þetta snerist ekki um peninga. Þetta snerist um eitthvað annað og aðallega um að Samfylkingin væri líklega á móti öllu sem væri eitthvað annað. Ég áttaði mig ekki alveg á svarinu. En það liggur algjörlega ljóst fyrir að það verður að fjármagna þetta kerfi, og kerfi sem hefur verið vanfjármagnað í áratug hefur látið verulega á sjá. Það sem Geðhjálp fjallar líka um í sínum viðbrögðum við þessari skýrslu er hversu nauðsynlegt það er að gera stórátak í heilsueflingu og forvörnum, þ.e. ekki bara að standa fyrir neðan fossinn og reyna að grípa þá sem eru fallnir, að farið sé á orsakaendann. Þá spyr maður, einmitt með þetta: Hvernig er verið að grípa börn t.d. á heimilum þar sem foreldri á við geðrænar áskoranir? Hvað er að gerast þar? Hvar er teymi sem grípur það barn? Hvað gerðist? Mig langar að minnast á magnaðan speking, Gabor Mate, sem hefur fjallað um þetta í feiknagóðri heimildarmynd sem heitir The wisdom of trauma, með leyfi forseta. Þar fer hann og ferðast úti um allan heim, talar m.a. við fanga og spyr þessa einstaklinga: Hvað kom fyrir þig? Við þurfum miklu meira að spyrja að þessu, ekki hvað er að þér, heldur hvað kom fyrir þig?