Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir hennar góðu ræðu áðan og taka undir það sem hún sagði um áhersluna á þjónustu við börn og ungmenni. Ég vona nú í þeim samhljómi sem ég hef heyrt við þessa umræðu hér í dag að við nýtum þetta tækifæri og að við nýtum þessa góðu úttekt Ríkisendurskoðunar til þess að setja niður tímasett og fjármögnuð skref í því hvernig við bætum geðheilbrigðisþjónustuna og að við sjáum þess stað í fjárlagavinnunni okkar og allri annarri vinnu er lýtur að fjármögnun geðheilbrigðisþjónustu. Ég hef verið að glugga fram og til baka í skýrsluna í dag undir þessari umræðu og það er óneitanlega dapurlegt sem m.a. kemur fram, og styður það sem hv. þingmaður var að nefna, og það eru fyrirætlanir úr aðgerðaáætlun frá 2015 um samþætta og samfellda þjónustu við fólk með geðraskanir og fjölskyldur þeirra. Það er á rauðu ljósi í skýrslunni. Það hefur sem sagt enginn árangur náðst í þessari samþættingu. Ég held að það sé hluti af þeim vanda. Það er að sjálfsögðu bæði vandi fjölskyldna sem eiga börn eða ungmenni sem eru að glíma við geðrænar áskoranir en það er heldur ekki síður mikilvægt þegar verið er að tala um samþætta þjónustu við fjölskyldur þar sem t.d. fullorðinn einstaklingur, móðirin eða faðirinn, glímir við veikindi og börnin á heimilinu líða fyrir.