Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:12]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þann 25. nóvember 2020 samþykkti Alþingi beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um heilbrigðisþjónustu í landinu. Þar skyldi varpa ljósi á stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum, innleiðingu hennar, kostnað og hvort settum markmiðum hafi verið náð. Í ljósi fyrri úttektar á geðheilbrigðismálum barna og ungmenna var ákveðið að beina sjónum einkum að málefnum fullorðinna með geðraskanir í þessari úttekt. Mig langar til að varpa ljósi á geðheilbrigðisþjónustu í mínu kjördæmi, nýja þjónustu sem er dæmi um aðgerð sem síðasta ríkisstjórn fór í og hefur skipt miklu máli og skiptir miklu máli fyrir okkur íbúa austan Hellisheiðar.

Árið 2019 tók til starfa geðheilbrigðisteymi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir langa og stranga undirbúningsvinnu. Geðheilsuteymið er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem eru með greindan geðsjúkdóm og þurfa á sérhæfðri og þverfaglegri þjónustu að halda. Í teyminu starfa m.a. hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, geðlæknir, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfi og félagsráðgjafar. Þjónustan er hugsuð sem heildræn og notendamiðuð og er áhersla á samþættingu þjónustu þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi. Markmiðið er að stuðla að og viðhalda bata, tryggja samfellu og samþættingu í meðferð, hvetja til sjálfshjálpar og styðja einstaklinginn til að lifa innihaldsríku lífi. Markmiðið er að fólk útskrifist úr teyminu og er eitt af markmiðunum að fækka endurinnlögnum skjólstæðinganna. Samvinna teymis hefur eflst og tengingar við aðrar stofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu hefur styrkt meðferð við skjólstæðinga. Meiri áhersla er lögð á meðferðarsamning í upphafi, ábyrgð skjólstæðings á eigin meðferð og hvaða markmiðum er unnið að og með hvaða hætti.

Í dag er um sex til níu mánaða bið eftir að komast að hjá teyminu og er starfsemin löngu sprungin. Til merkis um þörfina fyrir þessa þjónustu á Suðurlandi get ég nefnt að árið 2019, þegar starfsemi teymisins hófst, voru veitt 16 viðtöl. Árið 2020 var viðtalsfjöldinn kominn í 2.183 viðtöl og árið 2021 voru viðtölin komin vel yfir 3.000. Það sem helst háir starfseminni núna er skortur á sérmenntuðu fólki og það þarf að stækka teymið, fjölga meðferðaraðilum. Markmiðið er að veita þverfaglega þjónustu á sviði geðheilbrigðismála og þjónusta teymisins er viðbót við þau úrræði sem hafa verið til staðar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Reynslan af starfsemi teymisins sýnir að mikil þörf var fyrir þjónustuna og þessi þörf á því miður bara eftir að aukast.

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvægt og raunar eitt af markmiðum heilbrigðisstefnu. Á síðasta kjörtímabili var heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi sannarlega efld á fjölbreytta vegu og þeirri vinnu þarf að halda áfram á núverandi kjörtímabili. Hluti af þeirri eflingu var sérstakt fjármagn sem var sett í að stofna geðheilbrigðisteymið og það skipti sköpum. Nú er draumur okkar Sunnlendinga að hægt verði að stofna sambærilegt teymi fyrir börn og ungmenni enda þjónustar geðheilbrigðisteymið nú aðeins fólk yfir 18 ára aldri eins og áður sagði. Þörfin fyrir geðheilbrigðisþjónustu til barna er knýjandi.

Mig langar að geta þess að í árslok 2019 var geðheilsuteymi fanga sett á laggirnar en teymið sinnir geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Tvö fangelsi eru á Suðurlandi, fangelsið á Litla-Hrauni, fangelsið á Eyrarbakka og á Sogni í Ölfusi. Þjónusta geðheilsuteymis fangelsa er fyrir fólk sem er í afplánun í fangelsi og hefur því ekki aðgang að geðheilbrigðisþjónustu á sinni heilsugæslu eða öðrum stofnunum. Þjónustan nær einnig til þeirra sem eru á reynslulausn og hefur sú þjónusta farið vaxandi. Geðheilsuteymi fangelsa þjónar öllum fangelsum landsins. Geðheilbrigðisþjónusta innan fangelsa á að vera sambærileg þeirri þjónustu sem aðrir landsmenn njóta eftir því sem mögulegt er, að teknu tilliti til sérþarfa fanga. Algjör stakkaskipti hafa orðið á geðheilbrigðisþjónustu við fólk í fangelsum og mikilvægt að nú er búið að treysta þjónustu geðheilbrigðisteymis fanga til frambúðar.

Samkvæmt heilbrigðisstefnunni eiga allir landsmenn að hafa aðgang að hagnýtum gagnreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt og forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Tilkoma þverfaglegra geðheilsuteyma er liður í því að auka aðgengi landsmanna allra að heilbrigðisþjónustu og hefur sannarlega dregið úr álagi á geðdeildir sjúkrahúsanna.

Í greinargerð með beiðninni kom fram að skýrsla um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga hefði komið út 2016 og tímabært væri að kalla eftir skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu almennt. Ég tek heils hugar undir það og sendi hér hvatningu til þingsins um að unnin verði ný skýrsla um stöðu geðheilbrigðisþjónustu við börn hér á landi, enda tel ég að þar séum við komin í alvarlega stöðu. Við sjáum það og heyrum á óheyrilega löngum biðlistum hjá börnum eftir greiningum eða eftir því að komast til sálfræðings.

Það er erfitt að meta áhrif andlegra sjúkdóma til fjár eða athafna. Í skýrslunni er þó brugðið upp nokkrum tölulegum staðreyndum. Árið 2020 voru um 8.300 einstaklingar óvinnufærir að hluta eða öllu leyti sökum geðraskana. 9.740 einstaklingar að meðaltali leituðu til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana vegna geð- og atferlisraskana á árinu 2016–2020. Fjölgun einstaklinga sem nutu geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á árunum 2016–2020 var um 313%. Það voru 5.700 manns sem nýttu sér þjónustuna. Áætlaður kostnaður við geðheilbrigðisþjónustu var um 14 milljarðar á ári. Kostnaður almannatrygginga vegna lífeyris voru tæpir 27 milljarðar árið 2021 þannig að kostnaður samtals er um 42 milljarðar þegar bætur almannatrygginga eru teknar með.

Árið 2020 má segja að geðraskanir séu helsti orsakavaldur fyrir því að fólk falli út af vinnumarkaði. Árið 2020 fengu rúmlega 55.000 einstaklingar ávísað þunglyndislyfjum og 25.000 var ávísað róandi og kvíðastillandi lyfjum á sama ári. Það er umhugsunarvert að það er eitthvað í samfélagsgerð Vesturlanda sem er að valda auknum geðsjúkdómum og við því verður að bregðast. Við höfum sem samfélag ekki efni á því að missa fólk úr virkni. Hér þarf stórátak að eiga sér stað og eins og ég nefndi í upphafi þá bind ég miklar vonir við þverfagleg geðheilbrigðisteymi í þeirri vinnu. Við verðum að hlúa betur að þessum þáttum. Skýrslan sem við höfum rætt hér í dag er okkur vissulega áminning um að við verðum að gera betur í geðheilbrigðismálum. Geðraskanir eru meðal algengustu orsaka langvinnra sjúkdóma. Talið er að um 20% fólks þjáist af einhvers konar geðröskun á æviskeiðinu og þar af leiðandi er álagið af því töluvert á heilbrigðiskerfið. Lífstíll okkar í dag er þess valdandi að lífstílstengdir, langvinnir sjúkdómar eru að verða að faraldri og eru geðraskanir einn hluti þeirra. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hlúa að geðheilsu okkar. Vandinn er margþættur og lausnirnar sömuleiðis.