Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég get ekki annað en verið innilega sammála henni. Við erum með almannatryggingakerfi sem er búið að vera hálfgerður bútasaumaður óskapnaður sem þarf gjörsamlega að stokka upp. Erum við ekki þarna nákvæmlega í sömu stöðu? Við erum með kerfi sem virðist ekki virka og það sem er kannski skelfilegast í þessu kerfi er að ekki er hægt að hafa heildarsýn yfir neitt. Ekki er vitað hversu margir eru með hverja röskun fyrir sig, kerfin tala ekki saman. Það er ekki skráð, það eru skuggahliðar í kerfinu sem enginn virðist vita um og það er ekki verið að endurskoða það á nokkurn hátt. Er ekki kominn tími til að endurskoða kerfið, byrja upp á nýtt en líka huga að forvörnum? Við þurfum að byrja á því að reyna að gera allt sem við getum til að grípa inn í á fyrsta stigi og nýta kraftana til að stöðva þá þróun sem líka er í gangi.