Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir ræðuna sem hún flutti hérna áðan. Hún var áhugaverð og þar var farið yfir margt. En það var eitt sem ég saknaði kannski pínulítið. Ef ég hef skilið þetta rétt þá mun hv. þingmaður taka sæti í ríkisstjórn eftir ekki langan tíma og nú hafa þessir flokkar sem sitja í ríkisstjórn farið saman með völdin í fimm ár og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur enn lengur aftur í tímann og það teygir sig allt til ársins 2013 nánast óslitið. Skýrslan er eins og hún er. Við skulum ekkert vera með neinn fagurgala í kringum það. Þetta er algjör áfellisdómur, falleinkunn yfir þeirri stefnu sem rekin hefur verið í geðheilbrigðismálum í gegnum tíðina. Punktur. Við þurfum ekkert að rökræða það eitthvað meira. Það vantar klárlega fjármagn inn í kerfið til að geta bætt úr mörgum af þeim punktum sem nefndir eru í athugasemdum Ríkisendurskoðunar. En á sama tíma er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins bara í fréttunum í kvöld að benda á hagtölur og hagvísa (Forseti hringir.) og þann niðurskurð sem nauðsynlegur er á næstunni í fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig getur þetta farið heim og saman, sá niðurskurður sem fram undan er (Forseti hringir.) og svo þessi mikla uppbygging sem þarf að eiga sér stað í geðheilbrigðiskerfinu?