Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er einmitt áhugaverð ábending, þetta með gluggann þar sem fólk hefur tækifæri til að leita sér aðstoðar. Það er mjög áhugavert í samhengi þess máls sem við Píratar höfum verið að reyna að koma í gegnum þingið linnulaust á undanförnum misserum varðandi afglæpavæðingu. Neytendur vímuefna lenda oft í feluleik og glíma við þeim mun meira fráhrindandi kerfi þar sem ólöglegheitin sem slík eru enn annar þröskuldur sem þarf að stíga yfir, ólíkt þeim sem eru með áfengisvanda, og þeim mun erfiðara er að nálgast þennan hóp og vanda hans. Það væri mjög áhugavert ef fólk myndi loksins vakna til lífsins í meiri hlutanum alla vega og bara klára þetta mál. Ég veit að það eru vinnuhópar og alls konar svoleiðis í gangi því að það eru ekki bara belti og axlabönd, það er flotholt, kútur og björgunarbátur og ég veit ekki hvað sem þessi ríkisstjórn virðist vilja hafa áður en hún getur tekið nokkra ákvörðun sem gæti mögulega haft einhver jákvæð áhrif frekar en neikvæð. Og þegar maður fær svona skýrslu og skoðar síðan fjármálaáætlunina til að sjá hvað er að fara að gerast, miðað við þetta ástand sem við fáum hérna í hendurnar, sé ég enga sögu um það hvernig málin eru að fara að verða eitthvað skýrari og betri. Ég sé engar útskýringar: Við erum að glíma við þennan vanda (Forseti hringir.) og svona ætlum við að koma okkur út úr honum. Og ég hefði sérstaklega áhuga á því að spjalla við hv. þingmann um vímuefnavandann.