Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er alveg sammála því að það þarf umræðu til að taka lengra og stærra skref heldur en afglæpavæðinguna, en við erum að ræða þetta tiltölulega oft, t.d. í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi sem er sífellt verið að gjamma hérna um og það þarf vopn og ég veit ekki hvað og hvað, þegar það myndi nokkurn veginn leysa vandann að gera þessi efni, sem skipulagða glæpastarfsemin snýst um að miðla á milli fólks, löglegri sem slík. Þá verður það lögleg starfsemi í staðinn fyrir glæpastarfsemi og ég held að ofbeldið og ýmislegt svoleiðis myndi minnka í kjölfarið. Það er nefnilega þannig að langfæstir neytendur vímuefna, nákvæmlega eins og með áfengi og tóbak, eiga í vandamálum með þau. Langflestir neyta þeirra bara á mjög ábyrgan hátt. Einstaka aðilar verða fíklar. Þeir eiga í vanda og það tekur tíma að átta sig á því að viðkomandi eigi í vanda. Ég talaði um það hérna áður hvernig ýmiss konar birtingarmyndir þess að eiga í vanda með áfengi er ekki eitthvað sem við þekkjum endilega sem samfélag. Einn skólafélagi minn talaði um þetta, hann varð kærulaus þegar hann drakk áfengi. Það var vandamál eða var alla vega vandi hjá honum, áfengisvandi, það var eitthvað sem hann þurfti að glíma við. Það er ekki þessi staðalímynd af róna úti í horni sem fólk hefur einhvern veginn, að það sé áfengisvandi. Það er ekki staðalímyndin um að ef þú notar eitthvað sem núna flokkast sem ólöglegt vímuefni þá sért þú bara glataður fíkill. Langt í frá. Ég held að það vanti dálítið upp á umræðuna um það, skilning á því að þegar fíkniefnastríðið fór á fleygiferð þá var sagt: Allir sem prófa eru gjörsamlega glataðir. (Forseti hringir.) Svo er það ekki þannig. Það er byggt á miklum lygum í rauninni. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu þarf að fara varlega með öll þessi vímuefni, þetta eru hættuleg efni en velflestir neyta þeirra á ábyrgan hátt.