Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og fyrirspurnina, og þessar pælingar og innleggið inn í umræðuna. Þetta er auðvitað risavaxið mál. Það er þetta sem gerir þennan sjúkdóm oft svolítið illviðráðanlegan, þ.e. að þessir afleiddu hlutir, sem maður er stundum að nefna, eru svo miklir að umfangi. Það nær þá til barna en líka til maka og annarra fjölskyldumeðlima og jafnvel vina. Mengið í kringum þann veika er stórt og afleiðingarnar fyrir það mengi geta verið alveg óskaplega miklar. Það er auðvitað vel þekkt að börn alkóhólista alast upp við mjög erfiðar aðstæður og eitt og annað hefur verið reynt til að grípa þennan hóp. En vandinn er auðvitað sá að það eru alveg ótrúlega margir sem eru í felum með sína drykkju og neyslu og það er ekki eins og það sé alltaf vitað nákvæmlega hvaða börn það eru sem þarna eru undir. Það kemur oft í ljós síðar á lífsleiðinni, þegar þessi börn verða fullorðin, að þau vaxa upp úr sinni barnæsku sködduð og þá oft móttækileg fyrir því að misnota áfengi og vímuefni rétt eins og aðstæður voru þegar þau ólust upp. Þetta er auðvitað gríðarlega mikið vandamál og þess vegna er alltaf leiðin að hugsa um þessi mál, ekki bara út frá þeim sem er veikur heldur líka út frá börnunum og fjölskyldunni. Alvörugeðheilbrigðiskerfi, sem við værum að ræða hér, myndi auðvitað grípa inn í af miklu meiri krafti en gert er í dag þegar kemur að börnum veiks fólks, alveg sama hvort fólk glímir við alkóhólisma eða einhverjar aðrar geðrænar áskoranir. Skýrslan sem við ræðum hér sýnir okkur svart á hvítu að það er alveg ótrúlega mikið af börnum þarna úti sem þjást út af veikindum foreldranna og það getur verið, eins og ég segi, þessi geðsjúkdómur sem er alkóhólismi eða annar geðrænn vandi sem er þar er að baki. Því miður er það þannig að skýrslan er að færa okkur heim sanninn um að þessi mál eru bara alls ekki í nógu góðu standi hjá okkur.