Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir góða ræðu og hann kom inn á svolítið merkilegt mál, þ.e. húsnæðið. Maður furðar sig á því að við þennan risaspítala sem er að rísa við Hringbrautina er hvorki gert ráð fyrir geðsjúkdómum eða krabbameinsmeðferð, eins og það séu einhverjir sjúkdómar sem eigi ekki heima í svona nýrri og fallegri byggingu heldur eigi að vera einhvers staðar hornreka í lélegu húsnæði. Ég verð að vera sammála honum, ég hef farið inn á geðdeild og skoðað aðstöðuna þar á vegum velferðarnefndar og þetta er auðvitað ekki boðlegt á neinn hátt fyrir fólk sem er að glíma við þennan sjúkdóm. Hvar sér hann fyrir sér t.d. húsnæði eins og Danir eru að gera, í góðu umhverfi? Segjum bara t.d. við Vífilsstaðavatn, það væri alveg kjörinn staður. En miðað við hvernig þetta kerfi er byggt upp, hvernig það er fjársvelt og hvernig við tölum og tölum ár eftir ár en kerfið versnar, biðlistarnir lengjast, það er eiginlega bara happa og glappa aðferðin og öll þessi skuggasvæði, allir þeir sem detta á milli, það virðist enginn hafa tölfræðilegar upplýsingar um hversu margir þetta eru — kerfið virðist bara ekki virka, hvorki í því að reyna að lækna sjúkdóminn né að hafa yfirsýn. Og meðan við höfum ekki yfirsýn yfir fjöldann og samræmingu á milli kerfa þá hlýtur þetta að vera vonlaust dæmi. Hvernig sér hann fyrir sér að við gætum með nýju húsnæði og nýrri aðferð einhvern veginn brúað þetta bil?