Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem oft hefur rætt þessi mál hér í þingsal kemur, held ég, inn á svarið í lok andsvars síns hér: Það skortir yfirsýn. Það skortir heildarsýn eins og birtist glögglega í þessari skýrslu. Fyrsta skrefið eins og Ríkisendurskoðun bendir á er að einhver hafi heildarsýn yfir málaflokkinn og hvernig allt spilar saman því öðruvísi bara ganga hlutirnir ekki upp. Eitt er jafnvel að vinna á móti öðru og menn falla milli skips og bryggju. Þetta er því miður allt of algengt vandamál í stjórnmálum samtímans, ekki bara á þessu málasviði. Það skortir heildarsýn. Það skortir langtímasýn. Fyrsta atriðið sem þarf að koma í lag til að laga allt hitt er heildarsýnin og liður í þeirri heildarsýn þarf að mínu mati að vera umhverfið sem fólki er boðið upp á, augljóslega stofnanaumhverfið en líka bara umgjörðin um þessa þjónustu. Maður ímyndar sér að það hljóti að vera erfið og þung skref fyrir marga að ráðast í það að leita sér hjálpar og ef viðkomandi þarf að gera það með því að fara inn á stofnun þar sem manni líður nánast illa í umhverfinu, þá eru skrefin þeim mun þyngri. Ef viðkomandi getur gert það þar sem honum er tekið opnum örmum í fallegu, rólegu og afslappandi umhverfi þá verður auðveldara að taka skrefið til að leita sér hjálpar og meðferðin verður árangursríkari. Ég er alveg sannfærður um það, enda sjáum við það til að mynda í tilviki fíkni- eða áfengisvanda í útlöndum að þar leitar efnamesta fólkið eftir hjálp hjá stofnunum sem bjóða upp á fallegt umhverfi þar sem fólki líður vel til að byrja með.