Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er viðamikill málaflokkur og hv. þingmaður nefndi einmitt húsnæði sem var áhugaverð viðbót í umræðuna. Það var í fyrra, fyrir rétt tæpu ári, sem verið var að kynna skýrslu um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum, þar sem reyna á að ná einhvers konar heildarsýn o.s.frv. Þar er ein helsta aðgerðin í einum málaflokknum á næstu tveimur árum, henni er forgangsraðað efst, að hanna og byggja nýtt húsnæði. Þá fyrir 2030, það þarf að klára það, það tekur tíma að vinna það allt. Á næstu tveimur árum á að vera búið að hanna og byrja að byggja nýtt húsnæði fyrir geðþjónustu sem svarar kalli tímans, eins og hv. þingmaður var einmitt að tala um.

Nú er ár síðan skýrslan var gerð og send út til umsagnar en það bólar ekkert á þessu í fjármálaáætlun. Ég sé ekkert um þetta í áætluninni og þegar næsta fjármálaáætlun verður komin út eru liðin tvö ár, og það er tíminn sem talað var um til að koma þessu af stað. Þetta er forgangsatriði númer eitt í skýrslu stjórnvalda sem þau eru að lobbía fyrir sjálf, mjög áhugavert.

Ræða hv. þingmanns minnti mig á ákveðinn blómatíma í skapandi hugsun innan tölvunarfræðigeirans. Það var einmitt í Kísildalnum þegar fara átti í gríðarlega mikla nýsköpun. Þá var fólkið sem fékk það hlutverk að búa til nýja hluti einmitt sett í skapandi umhverfi, sem er mjög svipað og hv. þingmaður lýsti, þ.e. umhverfi fyrir fólk sem á í erfiðleikum með brútalismann sem við látum viðgangast hjá hinu opinbera.