Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir tvö gríðarlega mikilvæg atriði. Annars vegar nefnir hann yfirlýsingagleði stjórnvalda sem er töluverð, m.a. í þessum málaflokki, án þess að efndir og nauðsynleg fjármögnun fylgi. Hins vegar kom hann aðeins inn á umhverfi sem ég ætla að nefna á eftir. En ég byrja á hinu fyrrnefnda. Við sjáum það gerast hvað eftir annað hjá þessari ríkisstjórn að gefnar eru út miklar yfirlýsingar um betri kjör, um aðgerðir í þágu barna, um aðgerðir í geðvernd o.s.frv. Jafnvel birtast hér þingsályktunartillögur og frumvörp um málið. En þegar maður kafar ofan í hlutina sér maður að innihaldið er afskaplega takmarkað af því að þetta snýst allt um umbúðirnar. Það hefur verið ein helsta ástæðan fyrir því hversu lítið hefur gerst og jafnvel orðið afturför, eins og við sjáum í þessari skýrslu, á sviði geðverndar að hér hafa ráðherrar komið í fyrirspurnatímum, með frumvarp, í stjórnarsáttmála og hvaðeina, og lýst miklum áformum um að bregðast við í þessum málaflokki. En svo gerist ekkert. Jafnvel í fjármálaáætlun sjást þess engin merki að menn ætli sér raunverulega að framkvæma þessi loforð eða þessar tilkynningar sem kastað er fram.

Svo aðeins til viðbótar varðandi umhverfið, þótt ég sjái, herra forseti, að tíminn er óðum að renna frá mér. Ég verð eiginlega að fara í þetta, ef ég má, í næsta andsvari því að það er eitt mjög áhugavert atriði sem mig langar að nefna í framhaldi af andsvari hv. þingmanns.