Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég bæti kannski ekki neitt miklu við í spurninguna hvað þetta varðar. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að maður sér t.d. í stjórnarsáttmálanum: Lægri skattar, meiri þjónusta. Maður lítur í kringum sig og klórar sér í hausnum: Hvernig á að fara að því? Það er greinilega einhver stórkostleg uppgötvun um einhverja eilífðarvél sem er í þessum stjórnarsáttmála. Ég hef aldrei séð neinn láta sér detta í hug að veita meiri þjónustu og kosta til þess minni peningum á sama tíma. Vissulega er alltaf í gangi ákveðin hagræðing í opinberum rekstri en hún tekur alltaf tíma og það þarf að kosta til hennar, yfirleitt með ákveðnu átaki. Afurðin af því skilar sér oft ekkert alveg strax. Þetta er að gerast á sama tíma og við erum að glíma við halla á ríkissjóði.

Ég bara átta mig ekki neitt á neinu. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu öllu. Þegar ég fæ síðan fjármálaáætlunina í hendur átta ég mig á því að þau meintu ekki neitt með þessu. Það er nákvæmlega ekkert í þessari fjármálaáætlun, ekki neitt. Þetta er ekki einu sinni lægsti samnefnari eins og var á síðasta kjörtímabili. Núna erum við að lenda í því að ríkisstjórnin er svo óákveðin að hún þarf að kalla saman nefnd til að koma á einhverri sátt í sjávarútveginum, nefnd sem er á stærð við þingið. Það eru jafn margir nefndarmenn í nefndinni og þingmenn, við erum að tala um 60 og eitthvað manns. Við erum með ríkisstjórn sem getur ekki ákveðið neitt sjálf heldur varpar öllu yfir á einhverjar nefndir, skammtímanefndir eða sprettnefndir eða hvað sem það er, heilt þing af nefndum. Svo kemur eitthvað út úr því og það falla stór orð og ég veit ekki hvað en við sjáum aldrei neitt í fjármálaáætluninni þar sem stefna stjórnvalda á að koma fram.