Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 87. fundur,  8. júní 2022.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þetta getur ekki gengið mikið lengur svona og ég held að þetta ágæta fólk sem skipar ríkisstjórnina viti það nú alveg innst inni. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir kalla á pólitík. Velferðarpólitík. En þau kalla líka á hæfni til þess að fylgja henni eftir og reka hérna velferðarsamfélag sem virkar.

Hinn pólitíski vandi þessarar ríkisstjórnar er vel þekktur. Þau hafa ekki það sem þarf, sem er skýr, sameiginleg sýn á stærstu viðfangsefnin. Og þess vegna fresta þau erfiðum ákvörðunum og setja kerfið á sjálfstýringu. En því miður, eins og þetta er nú allt saman ágætt fólk, þá er að koma betur og betur í ljós að það ríkir líka stjórnunarvandi hér í þessu húsi. Eða hvað er það annars sem stendur upp úr þegar við lítum yfir þingveturinn sem nú er að ljúka? Fyrst var það hringlið. Þau þurftu endilega að fjölga ráðherrastólum, rugla svolítið í ráðuneytunum með óheyrilegum tilkostnaði og engum ávinningi fyrir fólkið í landinu. Hitt stóra málið sem stendur upp úr er auðvitað bankasalan sem var svo hroðvirknislega framkvæmd að jafnvel hörðustu hægri mönnum, hörðustu einkavæðingarsinnum á Íslandi blöskrar bara.

En þetta er nú ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af. Það sem ég hef mestar áhyggjur af, og við í Samfylkingu, er að þessi sami vandi, þessi sami skortur á sýn og hæfni er farinn að grafa undan því sem gerir okkur að velferðarsamfélagi. Og sífellt fleiri finna það. Venjulegt fólk um land allt finnur það að velferðarþjónustan virkar ekki eins og hún á að gera. Ég held að margir Íslendingar séu að vakna upp við vondan draum. Eða hvernig er það fyrir foreldra að mæta á sjúkrahús með slasað barn og þurfa að bíða í átta klukkustundir eftir aðhlynningu? Hvernig er það fyrir aldraða manneskju að þurfa að dúsa dögum saman frammi á spítalagangi vegna þess að það vantar hjúkrunarrými? Og hvernig haldið þið að það sé, hvað haldið þið að það þýði fyrir barn með þroskaskerðingu eða geðrænar áskoranir að komast bara ekki að, að þurfa að bíða í eitt og hálft, jafnvel tvö ár eftir nauðsynlegri greiningu og þjónustu? Það er langur tími í lífi barns. Og þetta gerist í einu ríkasta samfélagi í heimi. En þeir sem eru á lengsta biðlistanum á Íslandi, ef ekki bara þeim lengsta í öllum heiminum, það er fólk með skerta starfsgetu. Það eru öryrkjar Íslands. Þeir bíða ennþá eftir réttlæti Katrínar Jakobsdóttur sem á að koma í formi heildarendurskoðunar einhvern tímann í framtíðinni — heildarendurskoðunar. En þangað til má ekki gera neitt.

Kæru landsmenn. Nú er það óumdeilt að það ríkir meiri háttar vandi í heilbrigðiskerfinu okkar. Fjármálaráðherra segir að þessi vandi verði ekki leystur með auknum fjármunum, alls ekki. En hvað er hann þá í raun og veru að segja eftir tíu ára setu í ríkisstjórn? Hann er að segja að þjónustan sé sem sagt fullfjármögnuð. En þá er hann um leið að viðurkenna alvarlegan stjórnunarvanda; viðurkenna að ríkisstjórnin og ráðherrar hafi brugðist í að tryggja skilvirka nýtingu fjármuna til að byggja upp heilbrigðiskerfi sem virkar.

En auðvitað skortir líka fjármagn og á þetta benda sérfræðingar ár eftir ár og enginn veit þetta betur en fólkið á gólfinu, fólkið sem veitir þessa þjónustu. Og kannski er ekki við öðru að búast þegar ríkissjóður hefur verið holaður að innan, þegar tekjustofnar hins opinbera hafa verið rýrðir um tugi milljarða og þannig verið grafið undan getunni til að reka velferðarríki á Íslandi. Það er pólitísk ákvörðun og það er svo sannarlega ekki velferðarpólitík.

Kæru landsmenn. Þetta er orðið heldur súrt og þetta getur ekki gengið mikið lengur svona. Verkin kalla. Við þurfum að stokka upp í stjórnmálunum. Við þurfum hæfni, nýja forystu og skýra sín, sterka velferðarpólitík.