Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 87. fundur,  8. júní 2022.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:47]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Að loknum kosningum síðasta haust stóð meiri hlutinn sterkari en áður. Þjóðin kaus áframhaldandi stöðugleika og stjórnmál byggð á breiðum grunni með framfarir íslensks samfélags að leiðarljósi. Þegar áföllin hafa dunið yfir okkur skiptir sköpum hvernig tekist hefur til við að búa í haginn. Sterk skuldastaða ríkissjóðs gerði ríkisstjórninni kleift að bregðast hratt og vel við heimsfaraldrinum, verja afkomu íbúanna og tryggja sterka viðspyrnu í upphafi þessa árs.

Á sama tíma og það er gott að horfa yfir farinn veg er það hlutverk okkar að líta til framtíðar með gagnrýnum augum á verkefni stjórnmálanna. Eftir baráttuna við heimsfaraldurinn stendur samfélagið núna frammi fyrir nýjum áskorunum. Stríð hefur brotist út í Úkraínu og verðbólga á heimsvísu mælist hærri en hún hefur gert í áraraðir. Á meðan hefur viðspyrna efnahagslífsins á Íslandi tekist betur til en á horfðist í fyrstu. Nú horfir því við nýr raunveruleiki þar sem draga þarf úr spennu í hagkerfinu til þess að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að stuðla að frekari verðmætasköpun til að standa undir áframhaldandi lífskjarasókn landsmanna.

Lífskjörin felast ekkert síður í því hvernig við förum með sameiginlega fjármuni okkar allra en því hvað situr eftir í veskinu. Sífellt er kallað eftir meiri fjármunum en sjaldnast rætt hvernig við fáum meira fyrir hverja krónu. Ríkissjóður er ekki óþrjótandi auðlind, þvert á hugmyndir margra í þessum sal, og nú er tími til að stíga á bremsuna. Bætt lífskjör verða ekki til við samningaborðið eða í þessum sal hér, heldur eru þau afrakstur aukinnar verðmætasköpunar á landinu öllu. Vænlegasta leiðin til aukinnar verðmætasköpunar felst í því að hlúa bæði að þeim rótgrónu atvinnugreinum sem haldið hafa uppi verðmætasköpun í samfélaginu og að stuðla að því að nýjar atvinnugreinar nái fótfestu, vaxi og dafni. Þá eru möguleikar og tækifærin í orku- og loftslagsmálum mikil. Þegar við horfum á umræðuna um orkuþörfina í löndunum í kringum okkur er eins og sumir hér hafi stungið höfðinu í sandinn. Orðræðan er á þann veg að hér höfum við virkjað okkar síðustu grænu orku og að lausnin felist einungis í því hvernig við nýtum orkuna betur eða forgangsröðum henni, þegar staðreyndin er sú að okkur er að fjölga og á sama tíma eigum við fullt í fangi með orkuskiptin.

Ísland hefur allt til brunns að bera að vera áfram leiðandi á heimsvísu í orku- og loftslagsmálum. Líkt og Ísland var meðal fyrstu þjóða í hitaveituvæðingunni þá eigum við að stefna á að vera fyrst í orkuskiptum í samgöngum, hvort sem er í fólksbílum eða þungaflutningum. Hugvit, menntun og þekking í orku- og loftslagsmálum getur orðið ein helsta útflutningsvara Íslendinga ef okkur tekst vel til á næstu árum. Besta framlag Íslands í baráttunni við loftslagsvána er ekki aðeins að ganga fram með góðu fordæmi heldur einnig að styðja við aðrar þjóðir í þeirra vegferð

Kæru landsmenn. Ísland er land tækifæranna. Ég trúi því staðfastlega að besta leiðin til að tryggja farsælt samfélag sé að tryggja jöfn tækifæri þeirra sem hér búa. Við erum fámenn þjóð sem treystir á hæfileika okkar allra og því skiptir máli að hér virkjum við hvern og einn. Við höfum byggt upp öflugt samfélag sem á öllum helstu mælikvörðum mælist framúrskarandi. Og það er á grundvelli jafnra tækifæra sem við þurfum að halda áfram að byggja.

Öflugt menntakerfi er besta leiðin til að tryggja jöfn tækifæri og mér finnst allt of lítill tími hér í þingsal fara í að ræða hvernig við brjótum þar niður múra fortíðar til að vinna að bjartari framtíð barnanna okkar. Ég þrái það mjög að fá að ræða frelsi á sviði menntunar, minni miðstýringu og aukna aðkomu sköpunar og valfrelsis í skólana. Að þær framsæknu rannsóknir á kennsluháttum sem fara fram í kennaradeildum háskóla landsins rati með einhverjum hætti inn í skólastofuna. Að kveikja áhuga barnanna okkar á eigin framtíð. Að skilja eftir þann lærdóm að hver er sinnar eigin gæfu smiður.

Við Íslendingar erum í kjarnanum bjartsýn þjóð. Við búum á landi þar sem náttúran minnir reglulega á sig, hvort sem það eru jarðskjálftar, óhófleg snjókoma, eldgos eða jafnvel blessaða lúsmýið. Það er þá sem við sýnum best okkar anda, þrautseigjuna og kjarkinn sem í okkur býr.

Kæru landsmenn. Njótið sumarsins, hvort sem er í vætu eða sól.