Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[22:06]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ísland hefur rokkað á milli sæta á regnbogakortinu síðastliðin ár eftir að hafa verið í öruggri setu í efstu fimm sætunum þar áður. Núna árið 2022 sitjum við í níunda sæti á listanum. Það eru ákveðin vonbrigði, sérstaklega af því að við viljum að Ísland sé land jafnréttis og jafnra tækifæra. Við eigum að sitja í fremstu sætum á regnbogakortinu. Það liggur fyrir að Ísland hefur ekki staðið sig nægilega vel varðandi réttarbætur og bætta stöðu hinsegin fólks. Það er ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin ætli að taka málaflokkinn föstum tökum og sýna það í verki að hún taki málefni hinsegin fólks alvarlega. Ég fagna því að það verði gerð úttekt á líðan hinsegin barna í skólakerfinu og að hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum landsins. Sagan segir okkur að þessi ár geta verið ungu fólki sérstaklega erfið. Það á enginn að þurfa að líða útskúfun, fordóma eða aðra slíka hegðun sökum þess sem um ræðir.

Ég er einnig sammála tillögu þeirra um að breytinga sé þörf í hegningarlögum þess efnis að gera hatursorðræðu á grundvelli kyneinkenna refsiverða. Hatursorðræða er skaðleg og hefur mikil áhrif á þá sem verða fyrir henni. Hatursorðræða er í eðli sínu hatursglæpur og við ættum ekki að leyfa henni að viðgangast.

Það er eitt í þessari aðgerðaáætlun sem vakti sérstaka athygli hjá mér. Það er 15. liðurinn, Hinsegin sjávarútvegur og landbúnaður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Gerð verði könnun á viðhorfi og stöðu hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar. Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í sjávarútvegi og landbúnaði og mikilvægi fjölbreytileika í öllum atvinnugreinum.“

Við vitum að vissu leyti mjög lítið um stöðu hinsegin fólks í landbúnaði og sjávarútvegi og miðað við mína reynslu úr landbúnaðinum þá geri ég ráð fyrir að þar sé ekkert eða mjög lítið um hana talað. Því vakna ákveðnar spurningar þegar maður sér þetta. Það er þá líklega til sá vettvangur þar sem við höfum ekki verið að standa okkur. Eru þá kannski óbeinir fordómar í þessum geirum? Mögulega.

Við þurfum kannski að líta í eigin barm þegar kemur að þessu og því fagna ég að þetta sé sérstakur liður í aðgerðaáætluninni. Það er nefnilega mjög mikilvægt að við könnum aðstæður og vekjum athygli á stöðu hinsegin fólks, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, og mikilvægi fjölbreytileika í öllum atvinnugreinum. Eins og ég sagði áður þá er Ísland land jafnréttis og jafnra tækifæra en við viljum að svo sé og eigum að vera stolt af því. En við höldum ekki þeirri stöðu nema með fræðslu og áherslu á fjölbreytileika. Við gerum það með fræðslu í skólum, við gerum það í stofnunum og við gerum það innan stjórnvaldsins. Ég tel kjörna fulltrúa að vissu leyti þurfa mun meiri fræðslu á þessu sviði en við höfum fengið núna. Þá á það bæði við um ríkið og sveitarstjórnarstigið. Það er nefnilega mjög mikilvægt að þekking kjörinna fulltrúa og stjórnenda á réttindum og félagslegri stöðu hinsegin fólks sé viðunandi. Þessu náum við með að bjóða þeim upp á fræðslu og áherslu á jafnréttissjónarmið innan stjórnvaldsins. Stjórnvöldum ber að hlúa að öllum íbúum landsins og til þess þurfa þeir sem stjórna að vera meðvitaðir um stöðu allra. Nefndin ræddi þessa tillögu mjög mikið. Það voru oft mjög skrautlegar umræður í nefndinni og mjög hreinskilnar og ég held að þær hafi verið mjög góðar. Við gerðum breytingartillögur og bættum við tveimur liðum sem mér þykja mjög góðir, um líðan hinsegin öryrkja og aldraðra sem og öðrum lið um líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni. Ég tel að þetta sé bara mjög gott. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og mun sannarlega vera á græna takkanum þegar að því kemur.