Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, fjölgun mismununarþátta. 1. minni hluti helgast af því að forföll voru á þeim fundi þar sem málið var tekið út en kemur nú samt sem áður ekki að sök.

Með frumvarpinu er lagt til að bæta fleiri mismununarþáttum við lög nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Lögin gilda nú um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, en lagt er til að bæta við lögin mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Þessi breyting er gerð til samræmis við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 85/2018 þar sem mælt er fyrir um að víkka skuli út gildissvið laganna svo þau gildi um fleiri mismununarþætti til samræmis við gildissvið laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, samanber lög nr. 86/2018. Þá er lagt til að breyta heiti laganna í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti og liggur nefndarálit frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill 1. minni hluti árétta sérstaklega: Nefndin fjallaði um að það sé grundvallarréttur að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Til viðbótar þessari grundvallarreglu í íslenskri stjórnskipan hefur þótt tilefni til að festa í lög bann við mismunun tiltekinna hópa til að undirstrika jafna meðferð þeirra á öllum sviðum samfélagsins og veita einstaklingum sem telja sig verða fyrir mismunun á grundvelli tilgreindra mismununarþátta möguleika á að leita réttar síns fyrir úrskurðarnefnd.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að það kunni að taka breytingum með tímanum hvaða hópar verði fyrir mismunun í samfélaginu. Þar af leiðandi gæti verið tilefni til að endurskoða eða meta með reglulegu millibili þær mismununarástæður sem tilgreindar eru í frumvarpinu. Með því að tilgreina mismununarástæður sé það þó gert áþreifanlegt hvaða einstaklinga sé verið að vernda og veita aukna réttarvernd. Ójöfn meðferð fólks á grundvelli þeirra mismununarþátta sem frumvarpið tekur til þarf í einstaka tilfellum ekki að vera mismunun. Við mat á mismunun er áhersla lögð á samanburð við aðra einstaklinga við sambærilegar aðstæður og hvort þeir hljóti sambærilega meðferð. Ef svo er ekki þarf að vera unnt að réttlæta ólíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði. 1. minni hluti undirstrikar að ávallt þarf að meta hvert tilvik fyrir sig um hvort mismunun sé að ræða.

Fyrir nefndina komu fram ábendingar um mikilvægi þess að samráð sé haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks vegna löggjafar er varðar réttindi þess. Huga þurfi að sértækum aðstæðum fatlaðs fólks en mismunun gegn fötluðu fólki kann að birtast á annan hátt en gagnvart öðrum hópum sem einnig eru skilgreindir í frumvarpinu. Jafnframt kom fram að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref varðandi það að innleiða í íslenska löggjöf ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hvað varðar jafnrétti og bann við mismunun. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og mikilvægi þess að náið samráð og virk þátttaka hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sé til staðar við undirbúning löggjafar er varðar hagsmuni þess.

Frumvarpið er skref í rétta átt varðandi það að tryggja vernd einstaklinga gegn mismunun en í því samhengi vísar 1. minni hluti einnig til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tilgreint að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og að ný Mannréttindastofnun verði sett á laggirnar. Þá fjallaði nefndin um að mikilvægt sé að fylgjast með áhrifum laganna á sveitarfélög og hvort það hafi í för með sér aukin útgjöld eða gera ráðstafanir vegna þeirra, svo sem tengt viðeigandi löggjöf. 1. minni hluti bendir á að í greinargerð um frumvarpið kemur fram að þegar metið er hvort ráðstöfun teljist of íþyngjandi beri sérstaklega að líta til fjárhagslegs kostnaðar og umfangs. Það er ljóst að það hvílir þegar rík skylda á sveitarfélögum á grundvelli laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur verið fullgildur á Íslandi.

1. minni hluti telur að með frumvarpinu sé verið að tryggja mikilvæga hagsmuni einstaklinga sem hafa í gegnum tíðina orðið fyrir ýmiss konar mismunun í samfélaginu og það sé ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi þess að jafna stöðu þessara hópa.

Frú forseti. Það er mat framsögumanns að jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar sé mikilvægt hagsmunamál sem vert er að ná breiðri sátt um. Fram hafa komið athugasemdir sem m.a. eru reifaðar í áliti 2. og 3. minni hluta sem þarfnast frekari skýringar við. Því er lagt til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 2. umr. til frekari vinnslu af hálfu nefndarinnar. Undir álitið skrifa auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir.