Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem mér finnst í þessu máli, svo að ég segi það bara alveg eins og er: Þegar skoðuð er skilgreining á hugtakinu áreitni, sem er hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun o.s.frv. og hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi eða skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi — höfum móðgandi innan sviga — en ógnandi, fjandsamleg, niðurlægjandi, auðmýkjandi hegðun gagnvart öðrum einstaklingi er eins konar eineltishegðun. Á hún ekki að vera refsiverð? Á það að vera á forræði aðila að fara fyrir einhverja stjórnsýslunefnd sem á að finna út úr því hvort sekta eigi viðkomandi ef einhver sýnir öðrum ógnandi eða fjandsamlega hegðun?

Ég held að við séum komin inn á svið hatursorðræðu. Ég veit að hegðun getur líka verið í orðum og athöfnum en við erum með hegningarlagaákvæði um hatursorðræðu. Ef hegðun önnur en orðræða er ógnandi, fjandsamleg, niðurlægjandi eða auðmýkjandi hlýtur hún að falla undir sama stað í lögum, þ.e. í hegningarlögum, sem er þá eins og við erum með í þessari umræðu um hatursorðræðu. Ég get ekki séð og þekki ekki dæmi erlendis frá — það getur vel verið að ég sé að misskilja þetta algerlega — annað en að þetta fari fyrir stjórnsýslunefnd sem úrskurðar síðan um málið og dæmir dagsektir, kemur með kæruheimildir og sektar síðan. Það er eitthvað sem ég sé ekki alveg. Ég held að það sé miklu áhrifameira að hafa þetta inni í réttarvörslukerfinu. Það væri sérstaklega gaman að heyra álit hv. þingmanns um hegðun sem klárlega nálgast haturshegðun eða -orðræðu sem er ógnandi, fjandsamleg eða niðurlægjandi. Það tel ég vera mjög alvarlega hegðun sem ætti þá heima í réttarvörslukerfinu.