Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir samtalið. Ég er sammála því að það er jafnvel óljóst hvaða tilvik ættu að fara undir þessi lög og inn í þetta ferli, og síðan bara í hegningarlögin þar sem einnig eru ákvæði sem eiga að taka á þessu þjóðfélagsmeini. Raunar höfum við líka verið að gera breytingar á þeim hér á þessu þingi til að reyna að auka gagnsemi þeirra. Þar hefur nú líka verið gagnrýnt að ekki sé verið að framfylgja þeim lögum með fullnægjandi hætti til að vernda fólk gegn mismunun, áreitni og ofbeldi. Því miður óttast ég einmitt þessi vandamál við lögin, óskýrleikann og það að lögunum hefur ekki verið framfylgt með nægilegum hætti. Ég hef áhyggjur af því að lögunum sé ætlað að gefa þá mynd að við séum að berjast gegn þessu samfélagsmeini án þess að því fylgi nógu mikill hugur, mikið verk. Það gefur auðvitað augaleið að það nær ekki langt. Það mun ekki bera árangur. Þetta eru sannarlega ákveðin skilaboð út í samfélagið en það gefur augaleið að það verða að vera einhver úrræði fyrir hendi til að bregðast við þegar svona hlutir koma upp. Ég er sammála þingmanninum um að þetta sé óljóst og það gæti mögulega verið ein ástæða þess að lögunum sé beitt með þeim hætti sem er, þ.e. að þeim sé ekki beitt. Þau virka ekki í framkvæmd. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu og því miður hef ég áhyggjur af því að það er augljóst að lögin hafa ekki þjónað tilgangi sínum hingað til. Ég hef áhyggjur af því að það muni ekki breytast með þeim breytingum sem við erum að gera núna, nema síður sé.