Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér nefndarálit 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta).

Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög nr. 85/2018 verði bætt mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Það þýðir að lögunum verði breytt á þann veg að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar.

Í 7. gr. laga segir m.a. að hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna sé óheimil, samanber einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingu á 3. gr. laganna þar sem finna má orðskýringar. Lagt er til að hugtakið „áreitni“ verið skilgreint á eftirfarandi hátt: „Áreitni: Hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.“

Verði frumvarpið að lögum mun falla undir hugtakið „áreitni“-hegðun sem tengist trú og þar með trúartilfinningu og trúarlífi fólks. Sú breyting leiðir til þess að hegðun sem tengist trú þess sem fyrir henni verður, og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi, teljist áreitni.

Hér er lagt til að trú, trúartilfinning og trúarlíf verði gerð að verndarhagsmunum laganna og hegðun, áreitni, sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru niðurlægjandi, vegna trúar einstaklingsins — sem kemur fram í skilgreiningunni, þ.e. skapa hughrif sem eru ógnandi, fjandsamleg, niðurlægjandi o.s.frv.

Bann gegn guðlasti, áður í 125. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, var numið úr gildi með lögum nr. 43 frá 8. júlí 2015. Greinin lýsti athöfn refsiverða sem í daglegu tali kallast guðlast og var eftirfarandi: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Hvað það merkir nákvæmlega að draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags var háð mati hverju sinni og einungis dómstóla að skera úr um.

Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti Íslands þar sem eitt álitaefni sneri að 125. gr. hegningarlaga, en dómurinn er kenndur við tímaritið Spegilinn. Í dóminum sagði: „[V]erndarandlag 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er trúartilfinning fólks og réttur þess til að hafa hana í friði, sé um að ræða trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.“ Af dóminum má ráða að það teljist til refsiverðrar háttsemi að smána trú og trúarlíf fólks eins og þau eru vernduð í trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar, ef verknaðinum fylgi ekki eitthvert framlag til málefnalegrar umræðu.

Í greinargerð með frumvarpinu sem afnam guðlast árið 2015, þar sem það var fellt brott sagði m.a.: „Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðis. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.“ Þá segir jafnframt: „Með þessu frumvarpi er lagt til að ákvæðið verði afnumið. Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis.“

Ljóst er að það að misbjóða virðingu manns vegna trúar og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi vegna trúar hans, líkt og skilgreiningin á áreitni hljóðar í frumvarpi þessu, kveður á um sömu verndarhagsmuni og voru í 125. gr. almennra hegningarlaga um bann gegn guðlasti. Hér er því verið að taka bann gegn guðlasti aftur upp í lög að hluta eða að öllu leyti.

Hér er einnig verið að skerða tjáningarfrelsi það sem aukið var með lögum frá 2015 þar sem bann gegn guðlasti var afnumið. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.

Ekki er fjallað um það í frumvarpinu að verið sé að lögfesta á ný bann gegn guðlasti með því að kveða á um að óheimilt verði að hegða sér með þeim hætti sem lýst er í orðskýringu á hugtakinu „áreitni“. Það sýnir að frumvarpið er ekki nægilega vel unnið og ígrundað hvað fyrrgreint atriði varðar.

Ég vil einnig benda á að þessi lög um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna eru ekki háð saksókn saksóknara. Það kemur m.a. fram, eins og kom fram í umræðum áðan, að þetta fer fyrir jafnréttisnefnd og það er þar sem málið er leyst. Það eru ekki sömu kröfur heldur. Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur að refsiheimildirnar eru óljósar þarna og öll framkvæmdin er frekar óljós.

Ég tel að þessi lög, eins og kom fram í máli hennar — það hefur ekkert reynt á þetta. Ég efast um að það verði mikið af málum sem komi þarna fram, sem eðlilegt væri í öllu falli miðað við þá verndarhagsmuni sem eru þar á bak við, þar sem verið er að reyna að taka á því að fólk sé ekki beitt áreiti utan vinnustaðar. Þetta er mjög mikið af verndarhagsmunum sem eðlilegt væri að væru í réttarvörslukerfinu og þá undir saksókn. En það er klárt mál í mínum huga að hér er verið að innleiða bann gegn guðlasti að nýju.

Ég tel einnig, og það varðar tjáningarfrelsið, að móðgandi hegðun falli undir hugtakið áreitni, það er klárlega takmörkun á tjáningarfrelsi. Ég tel hins vegar að ógnandi, fjandsamleg, niðurlægjandi og auðmýkjandi hegðun eigi að vera þarna undir en ekki móðgandi hegðun. Það skerðir tjáningarfrelsi eins og kemur svo skýrt fram í greinargerðinni sem ég las hér áðan með lögunum frá 2015 þar sem bann við guðlasti var afnumið. Ég tel að það þyrfti að vera miklu meiri umfjöllun um tjáningarfrelsi í frumvarpinu þegar verið er að taka á þessum málaflokki. Einnig þyrfti líka að fjalla um ákvæði um hatursorðræðu í hegningarlögunum þar sem hugtakið áreitni nær líka yfir ógnandi, fjandsamlega og niðurlægjandi hegðun og auðmýkjandi. Þar erum við komin inn á svið hatursorðræðu og hér er vissulega talað um hegðun en orð eru líka hegðun og hegðun sem er haturshegðun, hvernig sem hún kemur fram, ætti líka heima í hegningarlögum.

Að lokum vil ég benda á, sem ég tel líka mikilvægt, að verði frumvarpið að lögum mun heiti laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna breytast í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, samanber 11 gr. frumvarpsins. Þar með verða tvenn lög í gildi á Íslandi um jafna meðferð fólks, annars vegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og hins vegar lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018. Ég tel ekki við hæfi að það séu tvenn lög með sama heiti og ég tel það liggja fyrir að það eru sömu ákvæði sem eru í báðum lögunum. Ég tel að það verði að liggja fyrir hvort þessi lög eru að veita sömu réttarvernd og ef þau eru að veita sömu réttarvernd, hvað eru þau þá að gera í tvennum lögum en ekki bara einum sem eru þá bara um jafna meðferð fólks, bæði utan og innan vinnumarkaðar og lagaskilin eru óskýr. Ef önnur lögin, t.d. lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, veita betri réttarvernd en lögin um jafna meðferð innan vinnumarkaðar, hvernig stendur á því og hvaða rök liggja þar á bak við? Þetta þarf að skýra í frumvarpinu en ég tel að raunverulega ætti að skoða þetta mál í heild varðandi bæði lögin. Það er mjög mikilvægt að það sé jöfn vernd bæði innan og utan vinnumarkaðar, engin rök fyrir mismuni þar á milli.

Annars vil ég þakka fyrir gott samstarf í nefndinni varðandi umfjöllun um þetta mál. Ég tel mikilvægt, eins og framsögumaður málsins, að þetta mál fari aftur til nefndar til frekari umræðu og verði jafnvel lagt fram í betra formi að ári á næsta þingi.