Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það að gera grín — bannið við guðlasti náði ekki til þess. Það má alveg gera grín að trúartilfinningu fólks ef það er góðlátlegt grín, það kemur klárt fram í dómnum í Spegilsmálinu, eins og ég hélt fram áðan. Af dómnum má ráða að það teljist til refsiverðrar háttsemi að smána trú og trúarlíf fólks. Já, það að smána er nákvæmlega það sama og stendur um hugtakið áreitni, þ.e. að auðmýkja og vera niðurlægjandi. Ég set samasemmerki milli þess að smána trúarlíf fólks og þess að fjalla á niðurlægjandi hátt um trúarlíf fólks og líka að vera auðmýkjandi og vera að áreita fólk, að það sé auðmýkjandi hegðun eða orðræða vegna trúarlífs fólks, vegna trúar fólks. Það er nákvæmlega það sama. Spegilsdómurinn skýrir þetta algerlega út hvað varðar trúna. Hann er grundvallardómur varðandi það bann við guðlasti sem gilti á sínum tíma. Ég felli þetta því algjörlega undir það og það er meira að segja verið að útvíkka það meira. Þú getur líka móðgað mann út af trú hans. Ég held að guðlastsákvæðið hafi ekki náð til móðgandi hegðunar. Að hugtakið móðgandi sé áreitni takmarkar tjáningarfrelsi fólks, réttinn til að móðga. Ég veit að það er umræða um þetta erlendis líka, í samfélögum í dag, þ.e. um að takmarka tjáningarfrelsið þannig að þú megir ekki móðga einn einasta mann. Það takmarkar tjáningarfrelsið það mikið að fólk verður hrætt við að segja skoðanir sínar um einföldustu hluti. Ég hef fært rök fyrir þessu máli og ég tel að nefndarálitið eins og það stendur standi algjörlega fyrir sínu. Ég hef ekki fengið nein mótrök frá forsætisráðuneytinu eða önnur lögfræðiálit þar sem segir að ekki sé verið að taka upp bann við guðlasti. Ég stend því við þá skoðun mína og ég myndi fagna frekari umræðu um þetta mál eins og ég hef reynt að vekja athygli á, bæði í nefndaráliti og í blaðaskrifum. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg umræða, sérstaklega út frá tjáningarfrelsinu. Ég held að umræðan sé mikilvæg, umræðan um það að fá ekki að móðga fólk eins og við gerum stundum í tali okkar — eins og segir líka í greinargerðinni: Það sem einn telur móðgandi telur annar ekki móðgandi, jafnvel sá sem talar.