Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir ræðuna og þakka fyrir þetta samtal. Hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar nefnir að það sé kannski eðlilegt að það taki tíma fyrir fólk að átta sig á tilvist laga og annað til að það reyni á þau. Ég hef skilning á þeim sjónarmiðum. Ég held hins vegar að því miður þá sé það ekki vandinn. Í fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til forsætisráðuneytisins spyr hann m.a. hvort ráðherra telji að markmiðum laganna hafi verið náð. Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurninni kemur fram, með leyfi forseta:

„Einn af mikilvægum þáttum í því að ná árangri í málaflokknum er þekking og fræðsla í því skyni að auka vitund almennings um þessi málefni sem og um löggjöfina sjálfa. Þá þurfa einstaklingar að þekkja réttindi sín og hvaða úrræði eru í boði ef þeir telja á sér brotið.“

Haustið 2018 boðaði Jafnréttisstofa hagsmunaaðila, þar með talið fulltrúa Fjölmenningarseturs, til kynningar og samtals um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Á þeim vettvangi voru hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sínu félagsfólki og viðskiptavinum inntak laganna og tilgang þeirra. Árið 2019 voru haldnir fjórir formlegir kynningarfundir í Borgarnesi, á Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi. Fundirnir voru opnir öllum en fulltrúar sveitarfélaga og fyrirtækja voru sérstaklega hvattir til að mæta. Fundunum var síðan fylgt eftir með könnun um það hvort aðilar þekktu til réttinda sinna samkvæmt lögunum. Það kemur reyndar ekki fram hver niðurstaða könnunarinnar var. Þá gaf Jafnréttisstofa út veggspjaldið „Það er bannað að mismuna“, á íslensku, ensku og pólsku á árinu 2020. Á árinu 2021 hélt Jafnréttisstofa tíu fundi með hagsmunaaðilum, ég þarf aðeins að tína út úr þessi tímans vegna, hér eru nefndar fleiri, fleiri aðferðir sem voru notaðar til að kynna lögin. Sú kenning sem ég er með, því miður, (Forseti hringir.) byggist ekki eingöngu á minni tilfinningu, hún byggist á þeim umræðum sem við áttum m.a. við forsætisráðuneytið í allsherjar- og menntamálanefnd. (Forseti hringir.) Ég óttast að fólk hafi leitað til kærunefndarinnar og verið vísað frá. Ég óttast því miður að vandinn sé kerfisbundinn og liggi ekki hjá þeim einstaklingum sem telja á sér brotið.