Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður telur að leitað hafi verið til kærunefndarinnar og málum vísað frá. Ég hef ekki upplýsingar um slíkt þannig að ég get ekki tjáð mig um það. En hv. þingmaður var einmitt að velta þessu fyrir sér og ég sagði það í ræðu minni áðan að oft tekur svona lagað tíma. Ég nefndi í því dæmi lög um jafnan rétt kynjanna. Ég held, ef ég man þessa sögu rétt, að Ísland hafi verið með fyrstu löndum í heimi til að laga lagaumhverfið og tryggja jafnrétti í lögum. Við vitum alveg að þegar þau lög voru samþykkt og jafnvel tíu árum seinna var jafnrétti ekki náð. Jafnrétti er jafnvel ekki náð í dag en við höfum samt náð mjög miklum árangri þannig að ef rök þingmannsins eru á þá leið að við ættum ekki að hafa það í lögum vegna þess að við séum ekki búin að ná því þá er ég ósammála því. Ég held einmitt að við þurfum að stíga þessi skref og setja það inn í lögin og ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að enn meira þurfi að gera í því að kynna og upplýsa fólk um rétt sinn. Það er mjög mikilvægt. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að jafnrétti sé ekki, að mismunun sé til staðar í íslensku samfélagi. Fólk af öðrum húðlit upplifir sig t.d. ekki með sama hætti og ég sem hér stend í íslensku samfélagi. Það er sorglegt og eitthvað sem við eigum að sameinast um að laga og berjast fyrir að réttur allra sé virtur og ég held að það mál sem hér um ræðir sé eitt af skrefunum í þátt. En ég er ekki að segja að með því getum við bara hallað okkur aftur í stólnum og sagt: Takk, klappað og klárt, þetta er komið. Það verður ekki svoleiðis og það er ekki svoleiðis.