Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er sannarlega ekki svo að ég sé að mæla gegn því að þetta sé í lögum. Ég er mjög hlynnt þessum lögum og nefndi hér áðan að ég tel lögin eins og þau eru í dag mjög góð. Það sem vekur upp áhyggjur hjá mér er að við séum að bæta við mismununarþáttum sem muni jafnvel rýra gagnsemi laganna með þeim rökum sem ég nefndi áðan. Ég mun ekki standa í vegi fyrir þessu máli, svo að það komi fram. Ég fagna því hins vegar að mér heyrist vera samhljómur um að málið verði sent aftur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og við munum ræða þetta betur.

Mig langar aðeins að tæpa á öðru atriði sem kom fram í máli hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar hér áðan og ég er sammála honum um varðandi þessa viðbót á trú og lífsskoðun í samhengi við skilgreiningu laganna á áreitni. Það er nefnilega þannig að okkur getur þótt hitt og þetta og við getum lagt ákveðinn skilning í hugtökin á hinn eða þennan hátt. En það vill svo til að í lögunum er áreitni mjög skýrt skilgreind og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif“ — Eða þau áhrif? Það þarf ekki einu sinni ásetning. — „að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.“

Miðað við þessa skýru skilgreiningu í lögunum á ég bágt með að sjá að það sem áður var fellt undir guðlastsákvæði hegningarlaga myndi ekki falla þarna undir. Ég fagna því að það sé ekki tilgangurinn og fagna því enn og aftur að við munum taka þetta til nánari skoðunar í allsherjar- og menntamálanefnd og legg til að við ræðum þar hvernig hægt væri að skerpa á þessu með einhverjum hætti þannig að það sé skýrt hver tilgangur löggjafans með þessum ákvæðum raunverulega er. Ég fagna sannarlega allri löggjöf sem ætlað er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli trúar og lífsskoðunar.