Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:45]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir ræðuna og fróðleg andsvör hér áðan. Í 2. málslið 7. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna segir, með leyfi forseta:

„Fyrirmæli um mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum sem og áreitni þegar hún tengist einhverjum þeim þáttum.“

Áreitni er mismunum. Enda er það líka þannig að ef þú áreitir einn mann en ekki annan þá ertu að mismuna. Það er alveg augljóst mál að áreitni er mismunun. Ég ítreka að þegar talað er um hegðunina áreitni þá er verið að tala um niðurlægjandi, auðmýkjandi, móðgandi, ógnandi og fjandsamlega hegðun. Það er áreitni. Það er alveg kristaltært og ég vek athygli á því að guðlast er vegna trúar. Þú ert að áreita, þú ert að smána trú fólks, það er niðurlægjandi, það er auðmýkjandi. Það er með ólíkindum að ekki sé fjallað um þetta í frumvarpinu. Þetta sýnir vinnubrögðin við þetta frumvarp í forsætisráðuneytinu. Ég get varla minnst ógrátandi á annað frumvarp sem er í gangi varðandi jarðir; það varðaði eignarráð, landamerki o.fl. Þetta fleira var heitasta málið, það var varðandi fjárfestingar erlendra aðila. Það sýnir vinnubrögðin á þeim bænum. Við fengum umsögn lögmannsstofu úti í bæ, mjög merkilega umsögn, af því að þeir rákust á þetta fyrir tilviljun.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að verði þetta að lögum verðum við með lög um jafna meðferð á vinnumarkaði annars vegar og lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar hins vegar? Eru þessi lög að veita sömu réttarverndina? Ef þau gera það, af hverju er þetta í tvennum lögum? Ef það er munur, hver er þá munurinn á réttarverndinni í þessum lögum? Það verður að liggja fyrir. (Forseti hringir.) Ég get ekki séð að við séum að grauta í þessum lagafrumvörpum með þessum hætti frá forsætisráðuneytinu og að það veiti einhverja réttarvernd. Léleg lög, óskýr lög sem eru ekki notuð, veita ekki réttarvernd. Þau eru blekking, (Forseti hringir.) fólk heldur að það njóti réttarverndar sem það gerir raunverulega ekki.