Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur og það er mjög áhugavert og gaman hjá okkur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þar erum við einmitt að ræða ýmis mál eins og fasteignamálið sem hv. þingmaður kom hér inn á. Ég er ekki viss um að ég hafi alveg náð hvaða spurningum beint var til mín en ég ætla samt að nota tækifærið. Hv. þingmaður hefur aftur á því skoðun að þetta eigi að vera í sama lagabálknum og ég segi bara að ég ber virðingu fyrir þeirri skoðun. Staðan er bara sú að við erum með lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þar eru þessir mismununarþættir tilgreindir. Það var gert fyrir einhverju síðan. Núna sit ég með það verkefni í fanginu sem þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar að hæstv. forsætisráðherra er að koma með breytingu á þessum lögum til að sambærileg réttarvernd eða sömu mismununarþættirnir séu tilgreindir í báðum lagabálkunum. Ég segi bara: Já, takk. Ég held að það sé mjög góð hugmynd og mjög skynsamlegt. Ég held að það sé óskynsamlegt að lögin sem við fjöllum um hér utan vinnumarkaðar séu í einhverri annarri upptalningu en lög á vinnumarkaði. Mér finnst það bara óskynsamlegt, enda fól hv. allsherjar- og menntamálanefnd forsætisráðherra á þeim tíma að koma með einmitt þá breytingu sem hér er verið að ræða. Í mínum huga getur það ekki verið skýrara hvað áreitnina varðar, annars værum við að tala hér um mismununarþætti og svo áreitni. Það kann vel að vera að það megi skýra betur hvað áreitni sé nákvæmlega. Það er skilgreint þarna og ég segi bara að ég er opin fyrir hugmyndum um að breyta því ef fólk telur það skýrara. Þá er reyndar hættan að það væri í misræmi við það sem er í annarri löggjöf eins og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem þegar hefur verið fjallað um. Því liggur munurinn kannski þar og þess vegna er væntanlega verið að notast við þessa skilgreiningu, því hún er til staðar í öðrum lögum. Ég held því að miðað við þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag þá fari betur á því að þingið samþykki þá breytingu sem hér um ræðir, en við höfum sem betur fer þrjú ár til stefnu á þessu kjörtímabili og við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd getum þá vel tekið þessi mál upp ef við teljum þörf á breytingu á þessum eða öðrum lagabálkum sem fjalla um þessi mál.