Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[23:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það á ekki að vera refsivert að móðga annan og við búum hér við tjáningarfrelsi. Það er til staðar, það er alveg skýrt og þetta frumvarp á ekki að hefta það með neinum hætti. En áreiti er annað en tjáningarfrelsi. Hv. þingmaður, ég er með betri hugmynd. Við samþykkjum þetta frumvarp svo að við tryggjum sömu réttarverndina innan og utan vinnumarkaðar. Hv. þingmaður leggst svo bara yfir það í sumar hvort það sé góð hugmynd að sameina þessa tvo lagabálka í einn lagabálk um almenn réttindi fólks innan og utan vinnumarkaðar og kemur með það frumvarp hingað í haust. Ef hv. þingmanni finnst það fullflókið, sem ég ímynda mér að gæti mögulega verið, gæti hann komið með þingsályktunartillögu þar sem hann fæli ráðherra að gera slíkt. Þá gætum við fjallað um það hér á þingi og í allsherjar- og menntamálanefnd næsta vetur.

Virðulegur forseti. Ég fagna mjög viðbrögðum hv. þingmanns við þessari hugmynd minni en ítreka að ég tel það þeim mun mikilvægara að við afgreiðum það frumvarp sem hér um ræðir. Á meðan það er ekki gert er réttarverndin ekki sú sama. Mismununarþættirnir eru ekki þeir sömu í þessum tveimur lagabálkum um réttindi innan og utan vinnumarkaðar. Ég held að á endanum séum ég og hv. þingmaður algjörlega sammála um að það sé eðlilegt að sömu þættir séu taldir upp í báðum frumvörpum.