Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen fyrir andsvarið. Jú, jú, ég er alveg sammála því, það rekst oft á þegar nýir koma inn og eru ekki alveg með það á hreinu hvernig hlutirnir eru.

Ég vil taka undir annað, það er tillaga okkar um að setja 10 milljarða á ári í endurskoðun almannatryggingakerfisins. Ef við hugsum aftur í tímann þá eru þetta ekki einu sinni nægir peningar til þess að vega upp á móti því þegar var farið í kerfisbreytingar gagnvart öldruðum á sínum tíma. Ég tók einhvern tíma saman að fyrir tveimur, þremur árum síðan var það komið upp í 15 milljarða, uppsafnaðir peningar sem töpuðust í sjálfu sér inn í örorkukerfið af því að það var ekki farið í þessar kerfisbreytingar á sínum tíma. Þannig að þessir 10 milljarðar á ári til þess að koma þessu kerfi af stað eru ekki miklir peningar.

Ég er líka sannfærður um það að ef við tökum þetta kerfi og endurskoðum og komum því til betri vegar þá á það eftir að skila sér margfalt til baka vegna þess að ef við gerum kerfið einfalt, gagnsætt og þannig að allir geti skilið þá á það eftir að virka margfalt betur en kerfið eins og það er í dag. Það segir sig sjálft að þegar viðkomandi sem lifir í þessu kerfi, og ég hef lifað í þessu kerfi, er að reyna að skilja það og reyna að átta sig á því hvort það sé í lagi að taka við einhverjum styrk og hann veit ekki hvaða afleiðingar styrkurinn hefur, hvort hann verður til góða eða jafnvel hvort hann getur valdið keðjuverkandi áhrifum meira að segja út fyrir kerfið yfir í félagskerfi sveitarfélaga, þá erum við með eitthvert skrímsli sem er bara skelfilegt. Ég segi að við verðum og eigum og okkur ber skylda til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að taka þetta kerfi og laga það.