Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[18:15]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn, kæra þjóð. Þetta hef ég að segja um þetta mál: Til að nútímasamfélag gangi þá þarf tryggan aðgang að orku. Því þarf að tryggja afhendingaröryggi hennar um allt land, skapa jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Mikilvægt er að ávinningur af orkuframleiðslu lendi fyrst og fremst hjá almenningi. Það er best gert með því að helstu orkufyrirtæki landsins verði ávallt í eigu opinberra aðila, sveitarfélaga eða ríkis. Með því móti rennur arðurinn til samfélagsins og sameiginlegra sjóða landsmanna eða beint til þeirra í formi lágs orkuverðs sem alltaf á að vera í forgangi. Lágt orkuverð er nefnilega eitt af frumskilyrðum þess að tekjulægra fólk geti lifað mannsæmandi lífi hér á landi. Áfram Ísland.