Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[20:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Fyrri ræða mín varð óvart dálítið endasleppt. Það kom í ljós að 20 mínútur voru ekki nógu mikill tími til að fara yfir það mál sem við ræðum hér, vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun. Það sem ég hefði viljað enda á og það sem ég ætla að byrja á núna er samandregin afstaða 3. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem ég skipa, til tillagnanna eins og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að þeim verði breytt. Bara upp á skýrleikann finnst mér skipta máli að nefna þetta allt saman.

Þriðji minni hlutinn styður tillögur meiri hluta um að færa Skrokköldu úr nýtingu í bið en leggur til, í rauninni með sömu rökum og meiri hlutinn hefur fyrir tilfærslu Skrokköldu, að Hvalárvirkjun verði færð úr nýtingarflokki í biðflokk. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um eða bent á — að segja „talað um“ hljómar eins og það sé eitthvað umdeilanlegt — að Skrokkalda sé á miðju hálendi Íslands og Hvalárvirkjun á miðju hálendi Vestfjarða og hafa, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, aðstæður varðandi Hvalárvirkjun breyst á þeim tíma frá því að hún var flokkuð í nýtingarflokk í fyrsta sinn. Þá munar kannski einna helst um neikvæða útkomu úr umhverfismati. Þetta er fyrsti punkturinn. 3. minni hluti styður tillögu meiri hlutans um að færa Skrokköldu en leggur með sömu rökum til að Hvalárvirkjun verði færð sömu leið úr orkunýtingarflokki í biðflokk.

Þá hefur 3. minni hluti bent á að það þurfi að færa Hvammsvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk og aftur með því að beita hliðstæðum rökum og meiri hlutinn gerir varðandi aðra virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár, það gangi ekki upp að ætla að meta heildstætt alla þrjá virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár en færa bara tvo þeirra í bið. Réttaráhrifin af biðflokknum eru einfaldlega þannig að þar þurfa þeir allir að vera til þess að vera metnir saman. Annars hefur það ekkert að segja gagnvart leyfisveitingum eða framkvæmdaraðila ef Hvammsvirkjun er enn í nýtingarflokki.

Síðan eru tvö atriði í áliti meiri hluta sem 3. minni hluti leggst gegn. Það er þá annars vegar þessi tilfærsla á Kjalölduveitu og Héraðsvötnum úr verndarflokki í biðflokk, sem ég fór það vel yfir í fyrri ræðu að ég ætla ekki að endurtaka það, og hins vegar er 3. minni hluti efins um að færa Búrfellslund úr biðflokki í nýtingarflokk. Þetta eru þau meginatriði sem 3. minni hluti hefur út á tillögur meiri hlutans að setja.

Af því að ég komst ekki neitt að vindorkunni í fyrri ræðu þá myndi ég vilja nefna að það er náttúrlega ánægjulegt að rammaáætlunin sé farin að taka utan um vindorkuna. Það vantar skýrara regluverk til að þar myndist einhver heildarsýn yfir landið varðandi nýtinguna og auðvitað miður að á síðasta ári hafi ekki náðst að afgreiða tillögur þáverandi umhverfisráðherra varðandi það, bæði varðandi breytingar á lögum um það að vindorkan heyrði með skýrum hætti undir rammaáætlun og samhliða tillögu um heildarskipulag landsins varðandi nýtingu vindorkunnar. En það hvernig var talað um vindorkuna í afgreiðslu rammaáætlunar 2013 sýnir kannski betur en nokkuð annað hversu hratt þessari tækni hefur fleygt fram af því að á þeim tíma var talað í nefndaráliti meiri hluta þess tíma um að vindorkan væri framtíðarkostur. Þess vegna var verkefnisstjórn 3. rammaáætlunar falið í rauninni að prufukeyra einn eða tvo virkjunarkosti. Niðurstaða verkefnisstjórnar að þessu sinni var sem sagt að af þeim tveimur lundum sem til athugunar voru skyldi annar fara í orkunýtingarflokk, það var Blöndulundurinn, en Búrfellslund ætti að setja í biðflokk. Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar tók síðan til við að endurmeta Búrfellslundinn miðað við það að hann væri í biðflokki en við það tækifæri endurhannaði virkjunaraðilinn kostinn þannig að hann lækkaði, smækkaði, varð minni að umfangi, og var færður til þannig að hann blasti ekki jafn mikið við til óyndis þeirra sem voru að njóta víðernanna ofan við Búrfellsstöð. En vegna þessa er erfitt að samþykkja, eins og lagt er til í breytingartillögum meiri hlutans, aðra útfærslu á Búrfellslundi heldur en var til umfjöllunar í 3. áfanga. Hér er ekki bara verið að færa til lundinn í breytingartillögum meiri hlutans heldur er búið að breyta númerinu, tilvísuninni í virkjunarkostinn, þannig að meiri hlutinn í rauninni endurflokkar annan Búrfellslund. Og vel að merkja lund sem í 4. áfanga lenti líka í biðflokki og er til umfjöllunar í núverandi verkefnisstjórn í 5. áfanga sem vinnur að því að fullnusta greiningu á virkjunarkostinum, m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem komu fram í nýlegri rannsókn á víðernum á Íslandi. Þannig að já, ástæðan fyrir því að 3. minni hluti styður ekki þessa tilfærslu á Búrfellslundi snýst ekki um það að hann telji þetta ekki geta verið ágætan kost sem kunni að vinna vel með vatnsaflsstöðinni sem er þarna á sama svæði heldur einfaldlega vegna þess að það er vafa undirorpið hvort þessi tilfærsla sé tæk, að taka úr 4. áfanga og færa inn í 3. áfanga til samþykktar.

Þetta er að mig minnir, herra forseti, það sem ég átti eftir að segja. Læt ég þá máli mínu lokið og hvet auðvitað þingmenn við atkvæðagreiðslu á morgun til að standa með rammaáætlun sem verkfæri og hjálpa okkur að verja verndarflokkinn fyrir þeim pólitísku árásum sem stjórnarflokkarnir leggja til í breytingartillögum varðandi þá kosti sem þau vilja færa úr vernd í bið. Breytingartillaga okkar í Pírötum, Samfylkingu og Viðreisn, þess efnis að sú flokkun haldist óbreytt frá því sem verkefnisstjórn komst að á faglegum grundvelli, verður tækifæri fyrir þingheim til að láta verkin tala varðandi það hvaða þingfólk er til í að standa með náttúruvernd þegar á reynir.