Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. velfn. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um sorgarleyfi. Með frumvarpinu er lagt til að foreldrum sem missa barn verði tryggt svonefnt sorgarleyfi, þ.e. leyfi frá launuðum störfum í allt að sex mánuði í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Lögfestingu frumvarpsins er þannig ætlað að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Með þessu er leitast við að viðurkenna áhrif sorgar vegna barnsmissis á fjölskyldur í heild og þannig styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum. Þá sé um leið stuðlað að því að sem flestir geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og verið þar virkir þátttakendur.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og nokkrar umsagnir bárust. Greint er frá því í nefndarálitinu sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega: Almennt var góð sátt í nefndinni um efni frumvarpsins og umsagnaraðilar einnig jákvæðir í garð þess. Nefndin fjallaði einkum um ábendingar sem komu fram fyrir nefndinni um að auk þeirra einstaklinga sem missi barn, sé ekki síður mikilvægt að tryggja þeim einstaklingum sem missi maka frá barni eða börnum, sama rétt til sorgarleyfis. Þá var jafnframt hvatt til þess að þegar yrði hafinn undirbúningur að lagasetningu þess efnis. Að meðaltali missi um 100 börn hér á landi a.m.k. annað foreldri sitt úr illkynja sjúkdómum á ári hverju og því nauðsynlegt að tryggja þeim einstaklingum sömu réttarbót og þá sem stefnt er að með frumvarpi þessu gagnvart þeim sem missi barn sitt. Af hálfu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins kom fram að verði frumvarpið að lögum yrði kannað hvort forsendur séu fyrir því að leggja fyrir Alþingi sérstakt breytingalagafrumvarp með það að markmiði að tryggja fleiri fjölskyldum og/eða einstaklingum sorgarleyfi.

Nefndin tekur undir framangreindar ábendingar og sjónarmið og hvetur ráðherra til að hefja vinnu við breytingar á lögum um sorgarleyfi með það að markmiði að færa einstaklingum sem missa maka frá börnum sambærilega réttarbót.

Nefndin leggur til fáeinar minni háttar lagatæknilegar breytingar á frumvarpinu sem ekki þarfnast sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í nefndarálitinu.

Undir álit nefndarinnar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Óli Björn Kárason.

Herra forseti. Ég kom inn á það fyrr í þessari framsögu að almennt hafi verið góð sátt í nefndinni um efni frumvarpsins og vil ég leyfa mér að segja, forseti, að ég skynja ekkert annað en að það eigi við um okkur flest, ef ekki bara öll, sem hér eigum sæti á Alþingi.