Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti sem inniheldur einnig breytingartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Nefndin fjallaði að nýju um málið en þetta er mál sem nefndin flytur og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði fram. Tvær umsagnir bárust við málið, önnur frá Carbfix ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur saman og hin frá Landsvirkjun.

Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA til að tryggja fullnægjandi innleiðingu á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Þannig er lagt til að í staðinn fyrir hugtakið „niðurdælingu“ sem kveðið er á um í lögunum komi „geymsla“ til að orðalag sé til samræmis við tilskipunina.

Nefndin hefur fjallað um málið, á ný eins og ég kom inn á, og áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að samræma orðalag við tilskipun ESB og tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar. Það tryggir tengingu við viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og skapar fjárhagslegan hvata til niðurdælingar og geymslu koldíoxíðs með þeim umhverfislega ábata sem af því hlýst.

Meiri hlutinn leggur til fáeinar viðbótarbreytingar sem eru þá allar í samræmi við þær breytingar sem við erum að leggja til í frumvarpinu. Það kom í ljós í yfirlestri að það átti eftir að breyta orðalaginu á fleiri stöðum. Því eru þessar breytingar til að tryggja samræmi og leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með þeim breytingum. Þær breytingar liggja fyrir í nefndaráliti þessu.

Undir nefndarálit þetta skrifa, ásamt þeim sem hér stendur, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.