Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

hjúskaparlög.

172. mál
[17:09]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Sennilega er ofbeldi innan veggja heimilisins eitt algengasta ofbeldisbrotið sem framið er á Íslandi. Þessi brot eru alvarleg, ekki síst vegna þess að ofbeldinu er beitt í nánu sambandi sem er bundið saman með lögum. Núgildandi lög veita þeim sem búa við ofbeldi alls ekki nógu greiðar leiðir til að losna úr hjónabandi. Þetta á ekki síst við um þolendur andlegs og fjárhagslegs ofbeldis eða kúgunar í sambandi. Þessu frumvarpi er ætlað að takast á við þennan vanda og markmiðið er að styrkja stöðu þolenda ofbeldis og tryggja rétt þeirra til að slíta hjúskap.

Hjúskapur er lögbundið og formlega staðfest samkomulag tveggja einstaklinga um að verja lífinu saman og deila ábyrgð á heimili og börnum ef þeim er til að dreifa. Hjúskap fylgja jafnframt skyldur til trúmennsku og framfærslu sem og réttur til erfða, falli annað hjóna frá. Grundvöllur hjúskapar er samkomulagið og getur fólk undirgengist og fallið frá því samkomulagi á eigin forsendum að lagalegum skilyrðum uppfylltum. Gildandi hjúskaparlög voru sett árið 1993 en ákvæði þeirra um hjónaskilnaði eru að mörgu leyti áþekk ákvæðum eldri laga um hjúskap frá 1972, sem einnig höfðu tekið takmörkuðum breytingum um það efni sem frumvarp þetta tekur til frá enn eldri lögum allar götur frá árinu 1921.

Forseti. Það er auðvitað mikilvægt að gildandi hjúskaparlög spegli tíðaranda. Samfélagslegar áherslur hafa tekið miklum breytingum, m.a. þegar litið er til hlutverka og valdastöðu kynjanna á heimilinu og einstaklingsfrelsis auk stöðu og mikilvægis hjónabandsins sem grundvallareiningar í samfélaginu. En þrátt fyrir að hjónabandið sé mikilvæg eining í þessu samfélagi okkar hefur vægi þess minnkað með tilkomu fjölbreyttari sambúðarforma, auknum samfélagslegum stuðningi við einstæða foreldra og viðurkenningu samfélagsins á ólíku fjölskyldumynstri. Eru því ekki jafn sterk rök fyrir hinum löngu tímamörkum og víðtæku takmörkunum fyrir lögskilnaði og voru á fyrri tímum, sérstaklega þar sem tímamörkin og takmarkanirnar reynast þolendum ofbeldis í hjúskap afar íþyngjandi. Það er löngu úrelt viðhorf að halda eigi í hjónaband hvað sem tautar og raular. Einstaklingur er frjáls að því að ganga í hjónaband og hann á með sama hætti að vera frjáls að því að slíta hjónabandi.

Eins og áður var vikið að er ofbeldi á heimilum eitt algengasta form ofbeldis á Íslandi. Sérstaða þess felst ekki síst í því hversu nátengdur þolandinn er gerandanum en það gerir þolanda auðvitað erfiðara en ella að slíta tengslum við gerandann og komast þar með undan ofbeldinu. Í umfjöllun Kvennaathvarfsins um heimilisofbeldi kemur fram að það geti verið af margvíslegum toga, til að mynda líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt, auk ýmiss konar hegðunar sem felur í sér ógn, hótun, stjórnun og/eða þvinganir. Þá sé oft um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða og birtingarmyndir þess séu einnig margar á borð við niðurlægingu, tilfinningalega kúgun, höfnun, lítilsvirðingu, einangrun og fjárhagslega stjórnun en einnig barsmíðar, nauðganir og líkamsmeiðingar. Allt ætti þetta að geta talist fullt tilefni til hjúskaparslita sem er þó ekki raunin samkvæmt ákvæðum núgildandi hjúskaparlaga. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að skilgreina heimilisofbeldi í lögum og reglum en eftir stendur að engin ein almenn skilgreining liggur fyrir. Leggja verður áherslu á að ofbeldi í nánum samböndum felur ekki einungis í sér samsafn einstakra tilvika heldur mætti virða slíka háttsemi sem eina heild. Þannig þarf að færa athyglina á það ógnar- og óttaástand sem getur skapast og jafnframt á þá viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmátt sem þolandi upplifir við slíkar aðstæður.

Forseti. Það gleður þann sem hér stendur að nú er útlit fyrir að frumvarp þetta verði að lögum en hann var fyrsti flutningsmaður sambærilegs frumvarps á 149. þingi, sem náðist ekki að mæla fyrir þá, og lagði það aftur fram á 150. þingi og gat þá mælt fyrir því í nóvember árið 2019. En þá dagaði það hins vegar uppi í nefnd. En núna á þessu þingi er gerð þriðja atlaga að málinu og er fyrsti flutningsmaður hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson ásamt fleiri hv. þingmönnum. Að þessu sinni er einnig bætt efnisatriðum í frumvarpið úr frumvarpi hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar sem einnig fjallaði um greiðari leiðir til skilnaðar.

Við í Viðreisn höfum alla tíð lagt áherslu á jafnrétti, ekki síst að rétta hlut kvenna á ýmsum sviðum. Vil ég sérstaklega nefna jafnlaunavottunina, áherslur á að rétta hlut kvennastétta þegar kemur að kaupi og kjörum, innleiðingu samþykkisreglunnar í íslensk hegningarlög þegar nauðgun er skilgreind og nú að greiða leið kvenna og auðvitað fyrir öll þau sem eru í hjónabandi úr hjónabandi þar sem ofbeldi er beitt. Af þessum verkum er ég ákaflega stoltur.

Forseti. Að lokum vil ég þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu og ríkan vilja til að sigla þessu máli í farsæla höfn. Við skulum samt ekki gleyma því að við eigum talsvert verk að vinna í þessum efnum og í frumvarpinu, eins og það lítur núna út, eru gefin frekari fyrirheit um vinnu nái það fram að ganga. En í mínum huga leikur enginn vafi á því að hér er á ferðinni mikil og góð réttarbót fyrir þá sem búa við ofbeldi í hjónabandi og verða og þrá að losna úr því helsi.