Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

hjúskaparlög.

172. mál
[21:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram á svipuðum nótum og lýsa ánægju með þetta mál. Við þekkjum allt of mörg dæmi þess að ofbeldismaður beiti hjónabandinu sjálfu sem áframhaldandi ofbeldistæki gagnvart maka, neiti að sleppa maka úr sambandinu, noti allar þessar lagareglur sem hægt er að nota. Hér er verið að reyna að leysa þær krækjur. Það er ekkert einfalt, sem endurspeglast í því hversu nákvæmar breytingar nefndin þarf að gera á frumvarpinu til að ná utan um þennan vanda. En ég ætla ekkert að endurtaka Óskarsverðlaunaræðu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar. Það kom margt fólk að þessu máli til að ná því á þetta stig og því ber öllu að þakka.

Mig langar líka að þakka þingflokki Viðreisnar fyrir að leyfa mér að lauma með einni grein inn í þetta frumvarp úr frumvarpi sem ég lagði fram hér um árið. 9. gr. þessa frumvarps snýst nefnilega ekki um ofbeldissambönd heldur hið öfuga, sambönd þar sem fólk er bara hætt að vilja vera gift og það vill bara skilja. (Forseti hringir.) Í gildandi lögum þarftu annaðhvort játa á þig hjúskaparbrot eða ofbeldi eða sitja í festum í hálft ár áður en þú færð lögskilnað. (Forseti hringir.) Nú getur fólk bara fengið snöggskilnað ef það er sammála um það. (Forseti hringir.) Ástin lifi, en þegar hún er dauð þá er það bara búið. [Hlátur í þingsal.]