Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Minni hluti nefndarinnar fagnar því að fram sé komin tillaga til Alþingis um að Alþingi viðurkenni vistmorð að landslögum og beiti sér fyrir því að ákvæðinu verði bætt við Rómarsamþykktina. Umhverfisréttur hefur hlotið aukið vægi bæði á landsvísu og alþjóðavísu á undanförnum árum. Viðurkenning vistmorðs sem glæps er rökrétt og þarft skref í baráttunni gegn loftslagshamförum. Lagaákvæði um vistmorð veitir nauðsynlegt verkfæri til að draga valdafólk til ábyrgðar fyrir víðtæk og langvarandi umhverfisspjöll. Það hefur hingað til reynst erfitt þar sem áhrifanna getur gætt á vistkerfi þvert á landamæri og yfir stærra landsvæði en regluverk hvers og eins þjóðríkis nær til.

Ríki á borð við Belgíu, Samóa, Vanúatú og Maldíveyjar hafa lýst yfir stuðningi við viðurkenningu vistmorðs sem glæps að alþjóðalögum, en þar að auki hafa forseti Frakklands, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Evrópuþingið og fjölmörg alþjóðleg umhverfisverndarsamtök tekið í sama streng. Það er löngu kominn tími til að náttúran hljóti stöðu sjálfstæðs réttar- og hagsmunaaðila og að réttarstöðu hennar sé gætt, bæði í þágu jarðarinnar sjálfrar en einnig, og kannski ekki síst, í þágu komandi kynslóða.

Nefndinni barst minnisblað um tillöguna frá utanríkisráðuneytinu þar sem áhyggjur eru reifaðar af því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hafi nú þegar mörg brýn mál á sinni könnu. Að mati minni hluta nefndarinnar er þó ekki tilefni til að stöðva framgang tillögunnar á Alþingi þrátt fyrir þetta, enda yrði væntanlega úr því bætt af hálfu dómstólsins sjálfs og aðildarríkja hans þegar þar að kemur. Viðbætur við Rómarsamþykktina yrði að sjálfsögðu að vinna í alþjóðlegu samráði, en um það fjallar efni tillögunnar. Verði hún samþykkt verður ríkisstjórninni falið að fara í þá vinnu og hefði hún þar með tækifæri til að verða leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavísu.

Minni hlutinn styður áform um að íslenska ríkið verði leiðandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála með samþykkt tillögunnar og leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.