Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  16. júní 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[00:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt fram, um breytingar á lögum um útlendinga, var að finna eina jákvæða breytingu sem var reyndar ekkert í lögum um útlendinga heldur í lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Sem betur fer var það frumvarp dregið til baka fyrir nokkrum vikum síðan; sem betur fer vegna þeirrar breytingar sem átti að gera á lögum um útlendinga, en því miður vegna þeirrar breytingar sem átti að gera á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Við vitum öll hvers vegna þessu var blandað þar inn; það var til að reyna að ná frumvarpi um útlendinga í gegn. Þetta var sykurpillan sem átti að ná því máli í gegn. Hins vegar er um að ræða breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem gerir fólki sem hefur dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, líkt og flóttafólk frá Úkraínu hefur fengið núna í nokkrum mæli, kost á að vinna, finna vinnu og vera undanþegið kröfu um að sækja um og fara í gegnum það ferli (Forseti hringir.) að sækja um atvinnuleyfi eftir að hafa fundið vinnu. Ég hvet öll til að samþykkja (Forseti hringir.) þessa breytingu. Þarna er tækifæri til að ná fram þessu góða máli sem ég held að við getum verið sammála um.