153. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Árna Gunnarssonar.

[14:29]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Síðan þingfundum lauk í júní sl. hafa tveir fyrrverandi alþingismenn andast. Báðir voru þeir forsetar neðri deildar og báðir tvívegis til þess trúnaðar kjörnir.

Árni Gunnarsson lést 1. júlí 2022, 82 ára að aldri. Hann var fæddur á Ísafirði 14. apríl 1940. Foreldrar hans voru Gunnar Stefánsson, fulltrúi hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, og kona hans, Ásta Árnadóttir húsmóðir. Formleg skólaganga Árna var stutt, hann lauk miðskólaprófi í Reykjavík, en stundaði síðan flugnám um tíma.

Hugur Árna beindist snemma að blaðamennsku og kynnti hann sér slík störf í Bandaríkjunum. Hann varð aðeins 19 ára gamall blaðamaður við Alþýðublaðið og síðar ritstjóri þess tvívegis. Þekktastur var hann vafalaust sem fréttamaður Ríkisútvarpsins 1965–1976.

Árið 1978 hóf Árni bein afskipti af stjórnmálum og bauð sig fram til þingsetu. Hann varð í þingkosningunum það sumar einn af mörgum ungum þingmönnum Alþýðuflokksins og átti sæti hér á Alþingi, með hléum, fram til 1991. Hann var kosinn forseti neðri deildar á stuttu haustþingi 1979 og gegndi embættinu á ný á þingunum 1989–1991. Hann þótti lipur og sanngjarn við fundarstjórn. Árni sat á 12 löggjafarþingum alls, þar af tveimur sem varamaður.

Árni Gunnarsson kom víða við á starfsferli sínum, sat í stjórnum og nefndum, ekki síst líknarfélaga og hjálparsamtaka. Á Alþingi lét hann sig mestu varða velferðar- og lýðheilsumál, jafnréttismál og þróunarsamvinnu. Hann var einnig áhugasamur um norræna samvinnu.

Árni Gunnarsson varð þjóðþekktur fyrir störf sín sem útvarpsmaður og naut vinsælda fyrir lifandi og greinargóðar frásagnir. Hann hafði fágað og drengilegt yfirbragð og lagði hvarvetna gott til mála og var vinmargur, hjálpfús og sáttfús. Ungur heillaðist hann af jafnaðarstefnu og frá henni hvikaði hann aldrei.