153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Kæra þjóð. Þá loksins er þingið komið saman, 153. löggjafarþing. Það er gott að vera komin aftur, miklu betra heldur en að hlusta á þessa innihaldslausu stefnuræðu forsætisráðherra sem ég hafði gert mér mun meiri væntingar til. Að hugsa sér að hér talar stjórnmálamaður og æðsti valdhafi þjóðarinnar um nákvæmlega nánast ekki neitt heldur fer með létta sögustund um það sem var og hugsanlega og vonandi það sem verður. Að hugsa sér að þar er ekki minnst einu einasta orði á þann þjóðfélagshóp sem ég er málsvari fyrir, gleymda fólkið, fátæka fólkið sem stendur í röðum fyrir framan hjálparstofnanir og biðja um mat, fátæku börnin sem geta ekki nýtt sér það sem hæstv. forsætisráðherra sagði að við skyldum gjarnan gera fyrir gesti okkar, þá sem sækja okkur heim, hjálpa þeim að komast í leikhús, við verðum að kenna þeim og hjálpa þeim að taka þátt í íþróttum. Ég spyr, kæru landsmenn: En hvað um þá sem eru hér fyrir? Það er ekki nóg að vera gestrisin. Það er ekki nóg að taka á móti fólki og þykjast allt fyrir alla vilja gera. Það verður líka að standa við það, það verða að fylgja efndir og það er algjört grundvallaratriði þegar við tökum á móti fólki sem við viljum opna faðminn fyrir, að við gefum þeim tækifæri á því að aðlagast samfélaginu okkar og tala íslensku, að við séum ekki að hamla þeim að tala íslensku. Hugsið ykkur, virðulegi forseti, og kæra þjóð. Hugsið ykkur að börn sem eru að koma hér og ætla að taka þátt í okkar samfélagi, þau sitja í sínum skólastofum og þau eru sótt þangað inn tvo klukkutíma í viku til að kenna þeim íslensku. Hvernig líður þessum börnum í samfélaginu okkar, okkar frábæra samfélagi? Illa, virðulegi forseti. Þeim líður illa.

Mig langar til að segja ykkur frá því að náinn vinur þurfti að leita aðstoðar á geðdeild, bráðageðdeild Landspítalans. En vitið þið hvað? Þú mátt ekki þurfa á bráðageðdeild að halda nema á milli tólf og fimm á virkum dögum. Þú skalt ekki voga þér að vera eitthvað tæpur á tauginni um helgar og á hinum tímum sólarhringsins. Þá þarftu annaðhvort að komast þangað í gegnum lögregluna eða sitja í ómælda klukkutíma inni á bráðadeild Landspítalans og bíða þar eftir þjónustu. Svona er Ísland í dag.

Svo er verið að tala um að allt sé vænt sem vel er grænt. Hvaða öfugmæli felast í því að tala um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn sem þykist vilja berjast fyrir orkuskiptum og öðru slíku er að fara að skella 5 milljarða sköttum beinustu leið á rafmagnsbílana strax á næsta ári? Það er 86 milljarða munur á halla ríkissjóðs á milli ára. Hvert skyldi nú eiga að sækja þann mun, þann jákvæða mun sem hallinn er lægri um? Jú, í vasa skattgreiðenda. Jú, í vasa millitekjufólks. Jú, til þeirra sem eru skattpíndir fyrir, fátæka fólkið sem er skattpínt og skattlagt þótt það sitji í sárri fátækt. En erum við að sækja þetta fjármagn til sægreifa, þeirra sem eru að fá 62 millj. kr. á mánuði í fjármagnstekjuskatt? Nei. Erum við að sækja það í bankana sem maka krókinn á okurvöxtum og því landslagi sem er búið að búa til núna, græðgisvæddu okurlandslagi sem búið hefur verið til fyrir bankana? Nei, en það skal selja, klára að selja gullgæsina sem tókst svo ansi vel að selja, sérstaklega fyrri salan. Hún var náttúrulega bara skandall, virðulegur forseti, og merkilegt að skýrsla Ríkisendurskoðunar skuli ekki frekar hafa fjallað um hana. Skýrslan sem við reyndar erum enn að bíða eftir.

Ég get aðeins sagt þetta, virðulegi forseti og elskulegu landsmenn: Flokkur fólksins mun veita harða stjórnarandstöðu hér í vetur enda veitir ekki af. Flokkur fólksins er málstaður þeirra sem hafa verið týndir og settir hjá garði og við munum aldrei bregðast þeim sem hafa gefið okkur sitt dýrmæta atkvæði og gefið sjálfum sér um leið sex öfluga þingmenn á Alþingi Íslendinga.