153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Átök geisa enn í Úkraínu þótt gagnsókn heimamanna veki von um frekari árangur gegn innrásarliðinu. Orkukrísa er víða í Evrópu. Í Bretlandi kostar núorðið 400 kr. að fylla baðkarið af heitu vatni. Verðbólga í Hollandi er 12%, í Eistlandi nálgast hún 25% og talið er að hún sé komin yfir 80% í Tyrklandi. Um þetta fjalla fréttirnar úti í heimi, í okkar heimshluta. Hvað er í fréttunum hérna heima á sama tíma? Ísland var uppselt í sumar. Atvinnuleysi er nú minna en fyrir heimsfaraldur, lægra en að meðaltali frá árinu 2000. Fiskverð er hátt. Orkufyrirtækin á Íslandi skila verulega góðri afkomu, þeirri bestu í sögunni. Hagvöxtur er um 10% í ár og í fyrra. 13.000 störf hafa orðið til á einu ári á Íslandi og afkoma ríkissjóðs batnar um 100 milljarða milli ára. Fram undan er mikil uppbygging innviða, átak í uppbyggingu og fjölgun íbúða. Verðbólgan er tekin að lækka. Það sýna nýjustu mælingar og menn á markaði spá því að hún muni geta lækkað áfram. En það gerist auðvitað ekki nema opinberu fjármálin styðji þá þróun og á það er lögð áhersla í nýju fjárlagafrumvarpi. Já, það eru skörp skil á milli þess sem er í fréttum hér heima fyrir og þess sem sagt er frá að sé að gerast í okkar heimshluta að öðru leyti. Hér er spáð áframhaldandi hagvexti en víða í Evrópu er enn verið að reyna að blása lífi í glæðurnar, en það er dálítið flókið að fást við verðbólguna vegna þess að skuldirnar hafa hrannast svo upp að það er erfitt að hækka vexti.

Því miður hafa lífskjör víða versnað vegna þessa og munu halda áfram að versna ef ekki tekst að ná stjórn á ástandinu. Eins og glöggir hafa kannski tekið eftir hef ég ekkert minnst á það að þá hafi komið fram í fréttum hér að Píratar hafi verið óánægðir með fjárlagafrumvarpið. Það mátti svo sem ganga bara út frá því., það hefði enginn fengið stig fyrir það í spurningakeppni. Af Samfylkingunni er það helst að frétta að mér heyrist að þau stefni að því að leggja varanlega niður helstu baráttumál síðustu tíu ára, íhugi að skipta um nafn en stefnan um skatta er greinilega óbreytt. Hún er almennt um að halda þeim háum. Ef einhver er að spyrja sig mun Sjálfstæðisflokkurinn áfram heita Sjálfstæðisflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram berjast fyrir bættri afkomu heimilanna í landinu. Og hvernig hefur það gengið undanfarið? Það gekk framúrskarandi vel, meira að segja í heimsfaraldrinum. Allar tekjutíundir bættu kaupmátt sinn í miðjum heimsfaraldrinum, ár eftir ár. Heimilin hafa aukið kaupmátt ráðstöfunartekna um 60.000 kr. á mánuði frá árinu 2016. Það er staðan á Íslandi. Nú þegar verðbólgan hefur aftur skotið upp kollinum og við erum að vinna í því að ná henni niður þá skiptir máli að opinberu fjármálin styðji sérstaklega þá sem standa veikast fyrir, eru með minnst á milli handanna og við stöndum með því fólki, m.a. með því að tryggja nú milli ára 9% hækkun bóta almannatrygginga. Þetta eru markvissar aðgerðir sem skipta verulega miklu máli.

Ég verð að segja það alveg eins og er að það kemur manni svo mikið á óvart við þessar aðstæður, þegar hlutirnir eru að ganga með okkur, við erum búin að snúa mjög þröngri stöðu upp í nýja sókn, mikinn hagvöxt, stórbætta afkomu ríkissjóðs, að heyra kvartað undan því hér á þingi og í þjóðfélagsumræðunni sums staðar að það sé ekki verið að kynna til sögunnar nægilega mikið af nýjum sköttum. Fyrst og fremst segi ég þetta vegna þess að afkoma ríkissjóðs er að batna þetta verulega og við erum með trúverðuga áætlun um að ná aftur endum saman. En það er líka vegna þess að það fer svo fjarri því að íslenska ríkið sé ekki nægilega fyrirferðarmikið í hagkerfinu, að við tökum ekki nægilega mikið af sjálfsaflafé fólks eða úr umsvifum í hagkerfinu til að millifæra héðan frá Alþingi. En það er einmitt hérna sem það birtist með skýrum hætti munurinn á ólíkri hugmyndafræði hér á þinginu. Við viljum tala fyrir stöðugleika, frjóum jarðvegi fyrir fólk til að blómstra á eigin forsendum. Svo eru hinir sem tala um ríkisvæðingu allra vandamála og allra lausna. Þetta eru stjórnmálin sem ganga út á það að hækka skatta endalaust. Sérstaklega ef einhvers staðar gengur vel þá verður að ráðast gegn því og síðan vilja menn hérna á Alþingi útdeila réttlætinu af því það eru jú stjórnmálamennirnir sem vita best hvernig fólkið á að hafa það, ekki satt? Þetta er stjórnlyndið á móti frjálslyndinu.

Undanfarin ár hefur kaupmáttur vaxið jafnt og þétt, m.a. með skattalækkunum — skattalækkunum — og með því að skapa jákvæð, almenn skilyrði fyrir fyrirtæki til að ráða fólk og borga því góð laun. Þannig lagast hagur ríkissjóðs og okkar allra með því að atvinnulífinu gangi betur. Það mun skila sér fyrir okkur öll og tryggja að við getum staðið myndarlega undir þeirri mikilvægu opinberu þjónustu sem við ætlum að halda úti.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum fordæmt árás Rússa á fullvalda ríki í Úkraínu og við þurfum að fylgja því eftir með fullri og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Við eigum ekki að vera eftirbátar nágrannaríkja okkar í stuðningi vegna þess máls. Hér heima fyrir höfum við tækifærin til að halda áfram í sókn. Við höfum nú þegar forskot á mörgum sviðum, eins og í orkumálum og víðar. Þetta þing verður vonandi heilladrjúgt í að taka góðar ákvarðanir fyrir land og þjóð. Til þess eru allar aðstæður. Hvernig úr rætist er algerlega undir okkur komið sem hér sækjum nýtt þing. Nýtum tækifærin, sækjum fram.