153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:16]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það er tæpt ár liðið frá síðustu kosningum til Alþingis Íslendinga. Í þeim kosningum varð ljóst hverjum íslenska þjóðin treysti best fyrir því vandasama verki að leiða þjóðina eftir erfiða baráttu við heimsfaraldur, baráttu sem ekki aðeins herjaði á heilsu okkar heldur einnig á efnahag þjóðarinnar. Þessi barátta tók toll af heilsu margra og þreki. Kerfin okkar stóðust álagið en það tekur tíma að ná fullum styrk að nýju. Heilbrigðiskerfið okkar, með öllu því magnaða fólki sem þar starfar, sýndi styrk sinn og fyrir það erum við þakklát. Faraldurinn tók á okkur öll. Lífið breyttist mikið meðan á faraldrinum stóð en hann hafði ekki aðeins bein áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig andlega og félagslega. Nú þegar líður á haustið finnur maður hvar sem komið er hvernig þrótturinn er aftur að komast í sama horf og áður og hvernig gleðin sem við fyllumst við það að geta ferðast óhrædd og sótt fjölmennar samkomur er aftur komin í augu fólks.

Viðsnúningi í efnahagslífi landsins má að miklu leyti þakka einmitt þessu nýfengna ferðafrelsi. Við höfum notið þess að hingað streyma að nýju ferðamenn sem vilja upplifa landið okkar og menningu. Ferðaþjónustan hefur tekið flugið að nýju og auðgar byggðir um land allt. Náttúran ber ábyrgð á stórum hluta af lífsgæðum okkar hér á landi. Það er hún sem dregur ferðamenn til landsins. Hún fóstrar landbúnað og sjávarútveg og í henni er uppspretta orkuauðlindarinnar. Síðast en ekki síst er hún dýrmæt í sjálfri sér með sínum fögru og oft hrikalegu myndum og flóknu og einstöku lífríki. Fortíðin hefur sýnt okkur að lykillinn að lífsgæðum á Íslandi er að feta einstigi verndar og nýtingar. Samtíminn í nágrannalöndum okkar sýnir að við erum einstaklega lánsöm með okkar innlendu orku. Ef rétt er á spilum haldið mun framleiðsla á innlendri orku fyrir ökutæki, skip og flugvélar veita okkur einstakt orkusjálfstæði. Fyrir þessari ríkisstjórn liggur að nýta tækifærin vel þegar kemur að orkumálum, vera ábyrg, vera framsýn.

Breytingarnar sem voru gerðar á Stjórnarráði Íslands eftir síðustu kosningar miðuðu allar að því að stjórnkerfið þjónaði betur samfélaginu. Veigamikil breyting fólst í því að undir nýtt innviðaráðuneyti heyra nú húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngumál, sveitarstjórnarmál og byggðamál. Með þessari breytingu hefur náðst betri yfirsýn sem leiðir til markvissari aðgerða, t.d. á sviði húsnæðismála. Í sumar undirritaði ég ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga rammasamning um húsnæðisuppbyggingu. Í gær hleyptum við formlega af stokkunum næstu lotu sem felur í sér samtal og samningsgerð við einstaka sveitarfélög. Í þessu starfi, sem fjölmargir hagaðilar hafa komið að, má segja að hafi orðið til sannkallað þjóðarátak í uppbyggingu, húsnæðis enda ekki vanþörf á því að við finnum öll hvernig skortur á húsnæði hefur valdið miklum hækkunum, bæði á húsnæði en ekki síður á verðbólgu og vöxtum. Sú vinna sem þegar er hafin í húsnæðisuppbyggingu markar að mörgu leyti tímamót. Hér eru ekki á ferðinni nein skammtímalausnir. Kerfið er ekki plástrað heldur er lagður grunnur að markvissri uppbyggingu til lengri tíma. Með þessum aðgerðum verður skapað jafnvægi sem kemur í veg fyrir miklar sveiflur sem leggjast ólíkt á nýjar kynslóðir sem koma inn á húsnæðismarkaðinn.

Virðulegi forseti. Tæpt ár er liðið frá þingkosningum. Á þessu tæpa ári hefur ríkisstjórnin m.a. tekist á við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs og stríðsins í Úkraínu. Við höfum þurft að stíga á útgjaldabremsuna fyrir árið 2023 til þess að ná tökum á þenslunni, á verðbólgunni og við sjáum strax árangurinn af ábyrgri stjórn. Við sjáum möguleikana vaxa árið 2023, ef við tökum aðeins til okkar að fara varlega þegar þenslan er mest og verðbólgan geisar. Afleiðingar verðbólgunnar eru Íslendingum vel kunnar og ekki af góðu. Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð.

Fyrir ári síðan treysti þjóðin þessari ríkisstjórn fyrir því að varða leiðina til framtíðar, til aukinnar hagsældar, til meiri jöfnuðar og fleiri tækifæra. Og þau eru víða, tækifærin. Við sjáum kraftinn í matvælageiranum, í ferðaþjónustunni, í orkugeiranum, hinum skapandi greinum og við sjáum hugverkaiðnaðinn vaxa hratt. Þessi ríkisstjórn mun áfram standa fyrir uppbyggingu í samgöngum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í menningunni og öðrum grundvallarþáttum þjóðarinnar, þessum sem skapa samfélag. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að skapa samfélaginu okkar betri umgjörð, betri skilyrði. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að bæta kjör almennings af því að til þess vorum við kosin.