153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Því miður, góðir landsmenn, þá verða þeir verst settu í okkar samfélagi enn og aftur að herða sultarólina í boði ríkisstjórnarinnar. Þeirra tími er enn ekki kominn. Hæstv. forsætisráðherra segir að það skipti máli að stjórnvöld styðji við þau sem eiga erfiðast með að mæta verðbólguvandanum og bendir m.a. á að stjórnvöld hafi hækkað greiðslur almannatrygginga nú í vor og boði nú 9% hækkun. Af þessari 9% hækkun má þakka fyrir að 2–3% skili sér í vasa þeirra verst settu, 6–7% renna í gegnumstreymiskerfi almannatrygginganna beint aftur í ríkissjóð og kjaragliðnunin eykst. Jú, þau hækka stolt greiðslurnar aukalega en á þann veg að eftir skatta og skerðingar og keðjuverkandi skerðingar skila þær nær engu í vasa þeirra verst settu.

Hvað segir þetta okkur? Jú, að ríkisstjórnin er vísvitandi og viljandi enn og aftur að reyna að villa um fyrir eldri borgurum og veiku fólki sem fast er í bútasaumuðum skerðingarvef almannatrygginga og kjaragliðnunar undanfarinna ára. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að nær allar hækkanir í almannatryggingakerfinu renni í gegnum vasa þeirra verst settu og aftur í ríkissjóð er að hætta að skatta fátækt, hvað þá sárafátækt. Á sama tíma borga þeir sem njóta arðgreiðslna upp á milljarða króna bara 22% skatt, engar skerðingar hjá þeim eins og hjá þeim verst settu í almannatryggingakerfinu. Staðreyndin er sú að 100.000 kr. í lífeyrissjóði umfram 25.000 kr. frítekjumark skilar í mesta lagi 25.000 kr. og það á sama tíma og fjármagnseigandi með arðgreiðslur fær að halda eftir 78.000 kr. af hverjum 100.000 kr. sínum. Þarna munar 53.000 kr. af hverjum 100.000 kr., þeim ríka í hag.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi og eignaupptaka á lífeyrissjóðum þeirra sem fastir eru í bútasaumuðum vef almannatrygginga. Flokkur fólksins var á móti því að tilgreind séreign upp á 3,5% yrði hluti af lífeyriskerfinu og þar með hluti af skerðingarvef almannatrygginga. Við vildum að hún yrði séreign launamannsins og ekki skert og hann gæti ávaxtað hana þar sem honum þóknaðist. Á sama tíma eru þeir ríku að verða ríkari og þeir fátæku verða fátækari í boði ríkisstjórnarinnar. Þá er hún einnig að skatta tap, ekki bara að skatta tap á sparireikningum í bankakerfinu heldur á einnig, í ofanálag, að skerða vaxtatapið, sem er ekkert annað en gróf eignaupptaka af verstu gerð.

Virðulegur forseti og góðir landsmenn. Stefnuræða forsætisráðherra er bara orð á blaði og því miður bara makalaust hjal fyrir öryrkja, eldri borgara og láglaunafólk. „Við höfum, við ætlum, við stefnum að, við erum á vaktinni“ kemur oft fyrir án þess að nokkuð sé á bak við það og hvað þá að verið sé að hjálpa þeim sem verst hafa það í okkar ríka samfélagi. Staðreyndin blasir við fólkinu í landinu; verið er að fegra ljótan sannleika með orðskrúði.

Heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum. Fregnir af fólki sem sent er heim þótt það sé fót- eða handleggsbrotið og látið þjást þar í hljóði og dæmum um það virðist frekar vera að fjölga en hitt. Ekki veit ég hvað heilbrigðiskerfið, sem ekki ræður við að sinna beinbrotum og sendir svo miskunnarlaust brotið fólk heim til sín, ræður við að sinna eða hvort nokkuð er á það að treysta. Það er ekki nema von að geðheilbrigðismál séu í algjöru lamasessi þegar sárin sem þó blasa við eru meðhöndluð með þessum hætti og þá lengjast biðlistar eftir aðgerðum. Enn er ósamið við sjúkraþjálfara og sérgreinalækna og kostnaði vegna þessa velt yfir á veikt og slasað fólk. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga eru líka verulegt áhyggjuefni en það er ekkert skrýtið miðað við lýsingarnar að þeir gefist upp. Fólkið lætur ekki bjóða sér hvað sem er út í hið óendanlega.

Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur hefur svo sannarlega sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins á undanförnum mánuðum. Í verðbólgunni sem nú geisar hefur hún tekið sér stöðu gegn heimilunum í landinu, gegn almenningi, en með fjármálakerfinu og róið á gamalkunn mið með fjármálafyrirtækjunum og hjálpað þeim að græða sem aldrei fyrr.

Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttu við verðbólguna einkennast af því að hún lætur eins og hún sé algerlega valdalaus í málinu, að Seðlabankinn sé bara að sinna skyldum sínum við heimilin með því að hækka stýrivexti og verja þau þannig fyrir verðbólgunni. Þessar aðgerðir gegn verðbólgunni eru miklu verri en verðbólgan sjálf. Það er staðreynd að vextir á Íslandi hafa hækkað um 340% á einu ári og 633% frá því að þau voru lægst í maí 2021.

Til vitnis um fáránleikann má vitna í könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní, en þá höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 82.000 kr. á mánuði. Þá hefur greiðslubyrði af 40 millj. kr. óverðtryggðu láni hækkað um 100.000 kr. á mánuði úr 200.000 í 300.000 kr. á mánuði og þá er eftir síðasta hækkun Seðlabankans upp á um 30.000 kr. í viðbót.

Í öðru lagi er það staðreynd að vaxtahækkanir bitna verst á þeim sem skulda og hafa minnst milli handanna. Í þriðja lagi alveg á hreinu að vaxtalækkanir skila sér beint í leiguverð og bitna verst á þeim þjóðfélagshópum sem verst standa, og þar með öryrkjum og öldruðum. Sjálfstæðisflokkurinn talar um skattalækkanir en á sama tíma er verið að skatta og skerða tap á sparnaðarreikningum í bankakerfinu á meðan þeir sem njóta arðgreiðslna borga bara 22% skatt og borga ekki 1 kr. í útsvar.

Vinstri græn taka þátt í þessari mismunun og eru varla græn þegar þau samþykkja að mengunarkvóti gangi kaupum og sölum þannig að skráð er á okkur kjarnorkumengun og kolabrennsla. Hvað er þá annað til ráða en að kalla bara á Framsókn, því að þeir samþykkja þetta allt saman og meira til?

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Að óttast lífið og tilveruna á ekki að líðast í okkar samfélagi. Að kvíða fyrir því að eiga ekki fyrir mat handa sér og börnum sínum er ömurlegt og á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Þá eiga börn ekki heldur að óttast að mæta í skóla eða frístundir vegna fátæktar. Okkur ber skylda til að koma þessum málum í lag strax og þá vonandi eigum við öll góðar stundir.