153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 sem er 1. mál 153. löggjafarþings. Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir Alþingi þegar það kemur saman og í 25. gr. þingskapalaga segir að frumvarpið skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings. Fjárlagafrumvarpið er byggt á grundvelli fjármálaáætlunar fyrir árin 2023–2027 sem var samþykkt á síðasta vorþingi.

Markmið frumvarpsins er skýrt: Að styðja við heimilin í landinu, vinna gegn verðbólgu og byggja upp styrk ríkissjóðs á ný. Síðustu tvö ár þurfti að örva hagkerfið og verja heimili og fyrirtæki, en nú er staðan töluvert mikið breytt. Hún er gjörbreytt. Gert er ráð fyrir miklum hagvexti í ár og einkaneysla hefur aldrei verið sterkari. Ferðamenn eru langtum fleiri en vonast var til, um helming íslenskra fyrirtækja skortir starfsfólk og útlit er fyrir að hátt í 10.000 fleiri flytji til landsins en frá því á árinu. Efnahagurinn hefur styrkst skref fyrir skref og á þessu ári orðið til ný störf, 13.000 ný störf.

Þrátt fyrir verðbólgu sem við höfum fundið fyrir á þessu ári og má rekja til ástands á húsnæðismarkaði en líka til alþjóðlegrar verðbólgu hefur tekist að verja kaupmáttaraukningu síðustu ára. Tekjur á mann hafa aukist verulega frá árinu 2016 eða um 60.000 kr. á mánuði og kaupmáttur ekki áður verið meiri. Þannig hafa flestir fleiri krónur milli handanna, eiga meira í íbúðum sínum en áður og aldrei fleiri hafa svarað því jákvætt að þeir eigi auðveldara með að ná endum saman. Það kemur fram í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem kom út fyrr á árinu.

Áherslan nú er að styðja þá sem minnst hafa og þá sem sjá múrinn inn á fasteignamarkaðinn fara hækkandi. Ég hef áhyggjur af þeim sem eru enn fyrir utan fasteignamarkaðinn. Við erum bæði með aðgerðir í bígerð og nýlega lögfestar aðgerðir sem koma til móts við þá hópa.

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að hækka bætur almannatrygginga, þær hækkuðu um 3% frá 1. júní og komu til viðbótar árlegri hækkun. Húsnæðisbæturnar hækkuðu um 10% á miðju ári og tekjuviðmið bótanna hækkaði sömuleiðis, auk þess sem greiddur var 20.000 kr. barnabótaauki með hverju barni til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Þetta skiptir máli til að teygja sig til þeirra sem fyrst finna fyrir áhrifum verðbólgu.

Á húsnæðismarkaði hefur heimild til að nýta tilgreinda séreign til íbúðarkaupa verið lögfest og mun auðvelda fólki með meðalháar tekjur að safna fyrir fyrstu íbúð. Áhersla stjórnvalda hefur að undanförnu beinst að framboðshliðinni frá því að lög um almennar íbúðir voru samþykkt árið 2016. Þá hafa ríki og sveitarfélög úthlutað stofnframlögum fyrir 3.100 leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægri hópa. Það jafngildir allri uppbyggingu íbúða árið 2019.

Nú eru margar vísbendingar til þess að verulega sé tekið að hægja á hækkun íbúðaverðs, að íbúðum til sölu sé tekið að fjölga og að framboð nýrra íbúða fari vaxandi á næsta ári. Starfshópur um húsnæðisstuðning er að störfum. Innviðaráðherra hefur nýlega kynnt sérstakt átak til næstu ára um stórkostlega fjölgun íbúða í landinu eða um 20.000 og við erum að endurskoða húsnæðisstuðning til einstaklinga í þeirri vinnu sem nú stendur yfir. Það má vænta tillagna innan fárra vikna.

Virðulegi forseti. Það eru ekki einstaka viðgerðir heldur heildarumgjörðin sem skiptir máli, ekki að mæta einstaka áföllum heldur skoða stærra samhengi hlutanna sem við þurfum að hugsa um þegar við erum að horfa til þess hvernig við mætum þörfum heimilanna í landinu. Stöðugleiki, hófleg verðbólga, fjölbreytt atvinnutækifæri. Þetta eru grundvallarþættirnir. Góðu fréttirnar eru þær að við erum á marga vegu á réttri leið. Hallinn heldur áfram að minnka. Afkoman hefur batnað um 100 milljarða á milli fjárlagaára núna. Skuldahlutfallið er hætt að hækka, ríkisskuldahlutfallið. Það er fyrr en vonir stóðu til. Verðbólga hefur aðeins komið niður og er raunar lítil á samræmdan mælikvarða borið saman við önnur Evrópulönd.

Þessar góðu vísbendingar munu einungis halda áfram að skila góðri niðurstöðu ef opinberu fjármálin styðja við framhald á því og um þetta snýst fjárlagafrumvarpið öðru fremur. Við viljum með markvissum og skynsamlegum framfaraskrefum og hófsemi í útgjaldavexti, vinna gegn þenslu, ná tökum á verðbólgunni og treysta þannig grunninn til framtíðar.

Í sumar kynnti ríkisstjórnin sérstakar breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Þar var sjónum einkum beint að á árunum 2023 og aðeins inn á 2024, en umfang þessara aðgerða nemur um 0,7% af vergri landsframleiðslu. Meðal aðgerða er varanleg lækkun, ferðakostnaður ríkisins, frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024 og lækkun lækkun á framlögum til stjórnmálaflokka. Sömuleiðis má nefna endurskoðun fjárfestingaráforma, aukið aðhald í útgjöldum eftir mikla aukningu undanfarin ár og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi inn á ákveðin málefnasvið. Það er hins vegar engin aðhaldskrafa gerð á bótakerfi almannatrygginga eða atvinnuleysistrygginga, dómstóla, sjúkratrygginga, heilbrigðis- eða öldrunarstofnana. Þessa starfsemi viljum við áfram verja.

Um fjórðung af 100 milljarða afkomubata samanborið við fyrri fjárlög má einmitt rekja beint til þessara aðgerða. Í frumvarpinu eru heildartekjur áætlaðar 1.117 milljarðar eða 29% af vergri landsframleiðslu. Heildargjöld ríkissjóðs árið 2023 eru áætluð 1.206 milljarðar eða um 31% af vergri landsframleiðslu. Hallinn er því áætlaður 80, 9 milljarðar eða 2,3% af vergri landsframleiðslu og afkoman, eins og áður er komið fram, er að lagast stórum skrefum milli fjárlagaára eða um 100 milljarða kr.

Virðulegur forseti. Til að standa áfram undir öflugum velferðar- og heilbrigðiskerfum er ekki aðeins mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni heldur þarf að byggja upp styrk ríkissjóðs til lengri tíma. Þess vegna er það skýrt markmið fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að stöðugleika og sjálfbærni með því að draga jafnt og þétt úr hallanum, stöðva hækkun skulda og það verði orðið að veruleika eigi síðar en á tíma fjármálaáætlunarinnar.

Það er áætlað að skuldirnar verði um 1.210 milljarðar eða 33,4% í lok yfirstandandi árs. Ég verð að segja að það er langt umfram væntingar, sérstaklega þegar við vorum að horfa fram í tímann í miðjum heimsfaraldrinum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldir hækki að nafnvirði um 65 milljarða á næsta ári og verði um 1.275 milljarðar en lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Gangi það eftir mun skuldahlutfallið lækka milli ára í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins og verða 33% í lok næsta árs. Það væri verulega mikilvægur áfangi á okkar skýru vegferð.

Tekjur ríkissjóðs í ár aukast umfram áætlun síðustu fjárlaga. Við fáum mest í viðbót úr virðisaukaskattinum eða tæpa 20 milljarða umfram áætlun vegna þess að gangurinn í samfélaginu er einfaldlega betri en við þorðum að vona. Aukning skatttekna er næstmest úr fjármagnstekjuskatti eða um 16 milljarðar.

Stærsta verkefnið á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum er heildarendurskoðun gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum fólksbílaflotans og sífellt sparneytnari bílum í umferð hafa tekjur ríkisins af ökutækjum og eldsneyti dregist mikið saman. Við því verður að bregðast. Við þurfum að finna nýjar lausnir, ella munum við ekki geta haldið áfram að halda við vegakerfinu, að ekki sé talað um að halda áfram að byggja það upp og bæta það. Sístækkandi hópur bíleigenda greiðir mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af vistvænum bílum eru afar takmarkaðar. Stefnt er að því að fyrirkomulag gjaldtöku miðist í auknum mæli við notkun en breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum á næsta ári er ætlað að marka fyrstu skrefin í átt að nýju kerfi. Þrátt fyrir fyrrnefndar breytingar eru rafmagnsbílar enn skattlagðir langtum minna en bensín- og dísilbílar og ríkulegum hvata til orkuskipta þannig viðhaldið.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir aukið aðhald í frumvarpinu er áfram stefnt að því að styrkja innviðina. Við viljum viðhalda sterkri opinberri grunnþjónustu og því er fylgt eftir af fullum krafti. Við ætlum sömuleiðis að viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga og það eru stigin stór skref, sérstaklega í ljósi verðbólgunnar í þeim efnum, skref sem við erum ekki vön að stíga hér í þessu samhengi. Hér er ég að vísa til þess að innan ársins erum við að hækka bæturnar, sem er ekki vaninn að gera, vegna verðbólgunnar. Heildarútgjöldin á næsta ári eru að vaxa. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 79 milljörðum og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar einna þyngst eða 56 milljörðum. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 22 milljarða milli ára.

Fjárfesting verður áfram yfir langtímameðaltali á næsta ári. Söluandvirði Íslandsbanka hingað til með tveimur áföngum, söluáföngum sem skiluðu um 108 milljörðum — þetta umfang stendur undir allri fjárfestingu í fjárlögum ársins 2023 og rúmlega það. En þar eru svo sem fjölmörg verkefni undir og sum þeirra algjörlega bráðnauðsynleg. Stærsta framkvæmdin er bygging nýs Landspítala en það er áætlað að 13,4 milljarðar renni til byggingarinnar. Þá er gert ráð fyrir um 11,8 milljörðum til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði. Takið eftir þessari fjárhæð, hversu hátt hún er komin. Hún er komin yfir 10 milljarða. Þetta eru gríðarlega stórar breytingar sem við erum að gera í skattkerfinu og í stuðningskerfunum með því sem við erum að gera í rannsókna- og þróunarkostnaðinum. Af verkefnum í fjárfestingarátaki 2021–2023 er áætlað að veita samtals tæplega 23 milljörðum og þar má nefna Samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila, samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu og tengdar framkvæmdir, áframhaldandi fjárfestingu í upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu.

Af öðrum einstökum málefnasviðum er fyrst að nefna útgjöld til heilbrigðismála. Þau eru áætluð 319 milljarðar og hækka um 3,7 milljarða að raunvirði frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þar vegur þyngst að fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru auknar um rétt um 3 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála eru áætluð 277 milljarðar og vega næstþyngst á eftir heilbrigðismálunum. Þau aukast mest frá fjárlögum fyrra árs eða um 6,1 milljarð. Breytinguna má að stærstum hluta rekja til hækkaðra framlaga vegna áætlaðrar fjölgunar elli- og örorkulífeyrisþega eða um 4,9 milljarða. Auk þess hækkar framlag í Fæðingarorlofssjóð um 2,6 milljarða sem rekja má til betri nýtingar fæðingarorlofsréttar, sem er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni.

Einnig ber að nefna að í fjárlögum næsta árs hækka bætur almannatrygginga um 6% og ég hafði nú aðeins snert á þessu en sú 6% hækkun tekur gildi þann 1. janúar. Örorku- og ellilífeyrisþegar fá hækkun samkvæmt verðbólguspá en auk þess hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka bæturnar til viðbótar sem nemur 1,1%, ofan á það sem gerðist um mitt ár.

Af auknum framlögum til verkefna og þjónustu má nefna 1,5 milljarða í tengivegi, það held ég að sé gríðarlega mikilvægt. 800 millj. kr. lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga, 2 milljarða vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd, 500 milljónir í geðheilbrigðismál, 500 milljónir í varnar- og netöryggismál og ég gæti haldið hér lengi áfram.

Stærsta verkefni næstu ára, virðulegur forseti, er að stuðla að stöðugleika að nýju og umhverfi þar sem fólk getur sótt fram og bætt kjör sín og haft ákveðna vissu um að það komi ekki óþægilegar sveiflur sem trufli forsendur sem fólk vill byggja ákvarðanatöku sína á. Þetta gerum við best með því að leggja áherslu á þessi helstu mál sem ég hef hér rakið. Við þurfum að styrkja innviðina, ná tökum á verðbólgunni og þurfum að halda áfram að styrkja vaxtargetu hagkerfisins. Þannig byggjum við áfram undir nýjar stoðir hagkerfisins með tilheyrandi fjölgun starfa sem tryggja góð laun. (Forseti hringir.)

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru, virðulegur forseti, en nánari umfjöllun er að finna í greinargerð frumvarpsins. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.