Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að svara þessu. Það er alveg skýrt, það er engin aðhaldskrafa gerð á rekstur Landspítalans frekar en aðrar heilbrigðisstofnanir ríkisins. Hins vegar eru gerðar tillögur, eins og við ræddum hér við breytingar á fjármálaáætlun í sumar, um 4,1 milljarða hliðrun á framlögum til fjárfestinga í málaflokknum sérhæfð sjúkrahúsþjónusta. Þarna erum við að aðlaga fjárheimildir að framkvæmdagetunni á næsta ári og við erum að horfa til þess hversu miklar uppsafnaðar ónýttar fjárheimildir eru til staðar. Tillagan fyrir nýja Landspítalann er 3 milljarðar og 1,1 milljarður vegna byggingar nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Hvað varðar nýja Landspítalann er nokkuð ljóst, og alveg augljóst reyndar, að það að aðlaga fjárheimildir að framkvæmdagetu muni ekki hafa nokkur áhrif á framvindu verksins. En það skiptir máli að þessar tölur séu réttar til þess að við sjáum hver umsvif ríkisins í hagkerfinu eru á næsta ári. Í nýrri og uppfærðri framkvæmdaáætlun eru framkvæmdir að nokkru að færast aftar í tíma og það má segja að svipaðir hlutir hafi verið að gerast með hjúkrunarheimilin. Við höfum lengi rætt hjúkrunarheimili hér og þörfina fyrir fjármögnun uppbyggingar hjúkrunarheimila og við höfum brugðist við því hér á þinginu með því að tryggja slíkar fjárheimildir en síðan hafa þær safnast upp og rúlla á milli ára þannig að það hefur ekki verið skortur á fjármagni þar sem hefur komið í veg fyrir fjárheimildir. En stutta svarið er einfaldlega þetta: Það er engin hagræðingarkrafa á reksturinn á Landspítalanum frekar en á öðrum heilbrigðisstofnunum ríkisins.