Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum einmitt komin að krónunni. Mig langar aðeins að ræða söluna á Íslandsbanka. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að losa ríkið við eignarhlut sinn í Íslandsbanka, með öllum fyrirvara um það hvað stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég tel það afar brýnt, ekki síst þegar við sjáum að vaxtaþátturinn er að verða fjórði eða fimmti stærsti útgjaldaliður ríkisins. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram þessari ferð, með öllum fyrirvara um það sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

En talandi um samkeppnismarkað, hæstv. ráðherra talar um að það sé samkeppni á bankamarkaði. Með fullri virðingu þá er ekki samkeppni eins og við tölum um samkeppni í Evrópu eða bara vestan hafs á bankamarkaði, vátryggingamarkaði. Meðan við höfum íslensku krónuna er tómt mál að tala um alvörusamkeppni á fjármálamarkaði, ekki síst þegar íslensk heimili borga miklu hærri vexti en heimili í Evrópu. Það er ekki hægt að bera þetta saman. En ég tek undir það með ráðherra að þetta skiptir máli. Þetta er líka risastór breyta í fjárlagafrumvarpinu.

Ég hef hins vegar áhyggjur í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem sett var fram 19. apríl sl. af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem Bankasýslan var lögð niður og svo átti að kynna nýtt fyrirkomulag varðandi söluna. Það hefur ekki enn verið gert. Ég velti fyrir mér hvort búið sé að „settla“ angist Vinstri grænna, hvort það sé formlegt samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að fara fram með sölu ríkisins á Íslandsbanka. Þetta er gríðarlega mikilvægt, þetta snýst um 76 milljarða. Við þurfum á því að halda, bæði til að lækka skuldir ríkissjóðs, minnka vaxtabyrðina og byggja upp innviðina, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. En það sem má ekki gerast er að ríkisstjórnin klúðri því gríðarlega mikilvæga verkefni að losa um hlut ríkisins í Íslandsbanka. (Forseti hringir.) Við þurfum á þessu fjármagni að halda til að minnka vaxtakostnað ríkisins, en þá verður ríkisstjórnin að kynna fyrirkomulagið á trúverðugan hátt þannig að við getum farið í þessa mikilvægu vegferð.