Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um vaxtakostnað ríkissjóðs. Ég vil halda því til haga hvernig við birtum vaxtakostnað ríkissjóðs, vaxtagjöldin. Við erum m.a. að birta reiknuð vaxtagjöld af ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum sem hækka töluna talsvert hjá okkur í samanburði við aðrar þjóðir sem byggja jafnvel alfarið á gegnumstreymiskerfi og eru ekki að sýna sama gagnsæi, eru ekki að vinna eftir sömu stöðlum. Það breytir því ekki að við erum með mjög há greidd vaxtagjöld og það er aðalástæðan fyrir því að ég hef alltaf talað fyrir því að við höldum aftur af skuldavextinum, að við höldum skuldunum lágum. Þess vegna barðist ég fyrir því að við settum okkur skuldaviðmið sem eru lægri en gerist og gengur annars staðar, m.a. af þessari ástæðu. Það er áskorun að fjármagna ríkissjóð í tiltölulega litlu hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil, það er alveg rétt. En við getum vel gert það, sérstaklega ef við gætum að skuldasöfnuninni.

Hér er aðeins komið inn á samkeppnina. Já, ég tel að það sé ótvírætt samkeppnismarkaður á þessum mörkuðum sem hv. þingmaður er að vísa til. Hins vegar er fákeppni einkennandi fyrir íslenska markaði. Fákeppni er ekki andstaða samkeppni, það er samkeppni fárra aðila og það felur í sér ýmsar áskoranir. Þetta eru bara grundvallarhugtök í samkeppnisréttinum. Fákeppni er markaður þar sem fáir eru að keppa en það er samkeppni þeirra í milli. Þess vegna skiptir máli að vera með samkeppnislöggjöf og veita þessum aðilum ríkt aðhald. Það skiptir máli að vera með skráð félög, opna reikninga og við höfum gríðarlega miklu hlutverki að gegna, m.a. í gegnum eftirlitsstofnanir. Við höfum farið þá leið að gera mjög ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja á Íslandi. Við erum með séríslenskan bankaskatt, við erum með hærri eiginfjárhlutföll en gengur og gerist annars staðar. Ef menn skoða grænbókina sem kom út fyrir nokkrum árum er einmitt farið ofan í það hvers vegna vaxtakostnaður í íslenska fjármálakerfinu er eins og hann er. Það er komist að þeirri niðurstöðu að hann sé í flestu sambærilegur og hjá bönkum af sömu stærð á Norðurlöndunum. Bent var á leiðir til að draga úr þessum kostnaði, m.a. að aflétta bankaskattinum, sem við gerðum. En nú eru menn komnir aftur og kalla eftir því að hann komi til baka. Grænbókin hefði svarað því mjög einfaldlega: Það mun auka vaxtakostnað íslenskra heimila.