Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er boðað aðhald á útgjaldahlið sem sagt er að gagnist í baráttunni við verðbólgu. Þetta aðhald bitnar illa á mörgum meginþáttum velferðarmálanna. Þar kemur fram að útgjöld eru almennt aukin mun minna en nemur verðbólgu á þessu ári, 8,8%, og jafnframt minna en áætluð verðbólga á næsta ári, 6,7%. Á sumum sviðum eru útgjöld beinlínis lækkuð að krónutölu.

Mín spurning til fjármálaráðherra er þessi: Hvernig stendur á því að útgjöld til velferðarmála haldist ekki í við verðbólgu? Og ég get aðeins útskýrt þessa spurningu nánar. Það er sagt að bætur til almannatrygginga muni halda verðgildi sínu með 9% hækkun. Þá er innifalið í þeirri tölu 3% hækkun sem kom í vor og um áramótin mun einungis bætast við 6% hækkun. Hérna er verið að tvítelja hækkunina frá í vor, 3% hækkunina, og það er sagt að hún eigi að koma um áramótin. Það er verið að tvítelja þarna og það er einnig verið að tvítelja húsaleigubætur á svipaðan hátt.

Annað sem mig langar að spyrja um er: Hvernig gagnast þetta í baráttunni gegn verðbólgu? Þarna er verið að tala um velferðarmálin, þetta eru tekjulægstu hópar samfélagsins, fátækasti hlutinn, og það vera með aðhaldskröfu þar, að hún skuli ekki haldast í hendur við verðbólguna, það er raunverulega ekkert aðhald eða engin barátta gegn verðbólgu. Ef það á að berjast gegn verðbólgunni þá þarf að auka tekjuhliðina. Það er hægt að minnka verðbólgu með skattheimtu. Af hverju var það ekki gert með veiðigjöldum og bankaskatti? Ég get ekki annað en bent á, út af umræðunni um bankana, að það er engin samkeppni. Hvernig í ósköpunum stendur á því að fjármálaráðherra er ekki með eigendastefnu þar sem krafa er um samkeppni? Að Landsbankinn og Íslandsbanki verði á samkeppnismarkaði og taki þátt í samkeppninni en séu ekki bara með ávöxtunarkröfu? Það er alveg í höndum ríkissjóðs að sjá til þess, sem eigandi tveggja af þremur bönkum þjóðarinnar, að það sé alvörusamkeppni á markaðnum.