Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði einhvern veginn gefið mér það að ég og hv. þingmaður værum svona frekar hægra megin við miðju, að hann vildi kannski takmarka vöxt ríkisins, leggja áherslu á borgaraleg gildi og að það væri ekki allt unnið með því að auka ríkisútgjöld. Ég er að færast á þá skoðun að hann sé einhvers staðar allt annars staðar í tilverunni þótt hann hafi komið fram fyrir Frjálslynda flokkinn á sínum tíma og núna Flokk fólksins.

Þessi áhersla á það að við hækkum skatta til að auka útgjöld, þetta er það sem ég kallaði stjórnlyndi í gær, þ.e. að stækka ríkið, auka miðstýringuna, láta þingið ákveða hvernig peningarnir flæða um hagkerfið endalaust. Og menn fá aldrei nóg — aldrei nóg. Það eru endalausar hugmyndir um ný ríkisútgjöld til að kaupa réttlætið. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að okkar aðgerðir gegn verðbólgunni séu skynsamlegar og nauðsynlegar. Þær auka aðhaldið á tímum þar sem hagfræðingar Seðlabankans hafa sagt: Það er hætta á ofhitnun í hagkerfinu, ofhitnun. Eru menn að hlusta eða ætla menn að fara þá leið sem oft hefur verið farin í sögunni með hrikalegum afleiðingum, að eyða út áhrifum vaxtahækkana Seðlabankans, að það sé hlutverk stjórnmálamanna að tala niður vaxtahækkanir Seðlabankans, koma þessu inn í þingið og eyða þeim út með því að útdeila kannski viðbótarbótum til þeirra sem verða fyrir einhverjum áhrifum? Við erum fyrst og fremst að horfa á þá sem minnst hafa. Þetta er rétt aðferð. Það er rangt sem hv. þingmaður segir að við séum að tvítelja eitthvað í þessu. Launa- og verðlagsliðurinn í fjárlögum, hann er sá sem svarar því sem hann hefur áhyggjur af varðandi verðþróun milli ára. (Forseti hringir.) Og ég hef áður verið að ræða hérna bankaskatt og veiðigjöld. Ég er algerlega ósammála því að það myndi gera (Forseti hringir.) eitthvað annað en að skila sér í verðskrár bankanna að bæta öðrum sérstökum íslenskum bankaskatti á fjármálakerfið.