Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ráð fyrir hv. þingmann að ræða við ráðherra málaflokksins. Mig langar aðeins af þessu tilefni að minna á að við erum í grunninn að vinna hér í rammafjárlagagerð, þ.e. að ráðherrarnir hafa langmest um það að segja sjálfir hvernig þeir ráðstafa sínu útgjaldasvigrúmi hver fyrir sig. Þeir bera þá um leið ábyrgð á því og eiga að gera þinginu grein fyrir því, bæði innan árs og í tengslum við fjárlög eins og verður gert hér á morgun. En af því að hér eru nefnd frjáls félagasamtök þá vil ég heils hugar taka undir með hv. þingmanni um það hversu mikilvægu hlutverki þau gegna í samfélaginu. Ég held að meginskýringin á því sem hv. þingmaður er hér að telja upp sé sú að þarna var um tímabundin framlög að ræða sem runnu sitt skeið. En það er samt ástæða til að fylgjast vel með því hvernig við stöndum við bakið á slíkum aðilum. Mér fannst almannaheillalöggjöfin sem við afgreiddum hér fyrir stuttu, frumvarp sem ég kom með inn í þingið eftir gott samstarf, m.a. við núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sem þá leiddi ákveðna undirbúningsvinnu, hafa verið gríðarlega mikilvægt innlegg inn í þetta þar sem einstaklingum og fyrirtækjum var gefin skattaleg ívilnun fyrir að standa með þessum aðilum. Þannig erum við að losa um fjármagn víða í samfélaginu til að hjálpa þeim sem eru að vinna að samfélagslegum verkefnum og almennt er ég þeirrar skoðunar, eins og hefur komið fram í vikunni, að við getum gert meira af því að starfa með einkaaðilum í alls konar velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu og að það muni á endanum skila betri árangri fyrir fólkið í landinu. Þetta er mín skoðun. Við erum auðvitað búin að stíga stór skref. Við erum með marga hluta heilbrigðiskerfisins á Íslandi í höndum sjálfseignarstofnana og einkaaðila sem standa sjálfir á bak við sinn rekstur. En ég held að tækifærin séu alls ekki fullnýtt og ég held að við getum tryggt meiri sveigjanleika, betri nýtingu fjármagns og það sem öllu skiptir fengið meira fyrir skattfé, aukið þjónustustigið með því að vera opin fyrir nýjum leiðum í þessu.