Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var komið inn á það að hv. þingmanni þætti sem fjármálaráðherrann eða ríkisstjórnin hefði misst tengsl við samfélagið sem við búum í og svo dregin upp mynd af samfélagi þar sem allt er á vonarvöl. En tölurnar tala sínu máli. Ég hef verið að vísa til lífskjararannsóknar Hagstofunnar. Það er hægt að mæla kaupmáttaraukninguna í landinu. Það er hægt að mæla atvinnustigið. Það er hægt að skoða framkvæmdastigið, af því að hér var komið inn á fjárfestingar. Jú, það er að verða frestun á sumum fjárfestingaráformum stjórnvalda en fjárfestingarstigið fer engu að síður upp. Við erum í fjárfestingarátaki. Við erum t.d. nýlega búin að ákveða að setja töluvert aukið fjármagn í tengivegi, það var lögð áhersla á það hér í þinginu, skiptir máli fyrir vegakerfið. Það vill líka oft gleymast að við erum í stærstu einstöku framkvæmd Íslandssögunnar sem fjármögnuð er af ríkissjóði, sem er nýi Landspítalinn. Hann er fjármagnaður vel í okkar áætlunum og er að koma upp úr jörðinni, loksins, eftir mjög mikla jarðvinnu sem er mjög stórt mál fyrir framtíð heilbrigðiskerfisins og samkeppnishæfni landsins í heildina. Við höfum stóraukið framlögin inn í heilbrigðiskerfið. Við höfum gert breytingar og styrkt heilsugæslustigið. Við höfum dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég harma það sem hv. þingmaður benti á sem er að það hafa ekki tekist samningar við sérfræðilækna. Þetta getur ekki verið þannig og ég vil styðja heilbrigðisráðherrann í því að ljúka samningum við sérfræðilækna sem allra fyrst. Það verður auðvitað að klára það mál. Það eru áskoranir víða og við erum með verðbólgu í landinu sem við viljum ná niður. Það er alveg rétt. Og það er áskorun fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkaðinn og við getum gert betur víða. En það að ekki sé allt eins og best verður á kosið er ekki dæmi um að okkur sé að mistakast.