Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og mig langaði líka að tæpa á heilbrigðisþjónustunni. Þar sjáum við að fjárlögin í fyrra gerðu ráð fyrir 137 milljörðum og hér var talað um aðhald upp á fjóra komma eitthvað milljarða, sem hæstv. fjármálaráðherra vildi meina að væri ekki. En gert er ráð fyrir launabreytingum upp á 3,4 milljarða. Ef ég læt mér detta í hug að launakostnaður í heilbrigðiskerfinu sé um 70%, sem ég held að gæti verið, þá væri þetta hækkun upp á sirka 3–3,5% miðað við að laun séu 70% af þessu. En við heyrðum á fundi fjárlaganefndar í fyrra, þegar við hittum nýjan forstjóra Landspítalans, að bara vinnutímastyttingin tók laun 200 starfsmanna til sín. Það þarf að laga það. Og síðan er alltaf talað um að það sé mönnunarvandi. Greinilega þarf að bæta við og það er alltaf sagt: Mönnunarvandi. Það þarf að bæta við fólki og því kostar eitthvað að laga þennan mönnunarvanda. Fólk kemur ekki inn á spítalann launalaust. Gætu sirka 3,5% dugað bæði til að bæta fyrir vinnutímastyttinguna en ekki síður þann mönnunarvanda sem liggur svo sannarlega fyrir, ekki bara á Landspítalanum heldur á landsbyggðinni allri? Við sjáum þetta á heilsugæslustöðvunum úti um allt land. Þar sjáum við að þessir fjármunir sem gert er ráð fyrir í launabreytingar munu aldrei nokkurn tímann duga til að leysa þennan vanda.